Hvers vegna Framsókn og stuðningsmenn þeirra?

0
1505

Vilt þú bæjarstjórn með skýra stefnu sem þú treystir til þess að standa við það sem sagt er?
Þá er Framsóknarflokkurinn og stuðningsmenn þeirra þinn kostur!

Fjölskyldan og einstaklingurinn í forgrunni

Forgangsröðun Framsóknarmanna og stuðningsmanna snýr að því að skapa sterkt samfélag þar sem fjölskyldan og einstaklingurinn er í forgrunni. Hjarta hvers samfélags slær gjarnan þar sem börnin okkar eiga í hlut. Undanfarin ár hefur áherslan verið á húsnæðismál leik- og grunnskóla. Við munum setja mönnunarmál þar í forgang, samstarf við starfsfólk er undirstaða þess að vel til takist og höfum við miklar væntingar til þess að það muni ganga vel. Jafnhliða munum við ljúka við endurbætur á Sindrabæ og Vöruhúsinu á kjörtímabilinu.
Við munum lækka fasteignaskatt á heimili í sveitarfélaginu og draga þannig úr skattbyrði fasteignaeigenda.

Jafnrétti til náms, tómstunda- og íþróttaiðkunar

Framsókn hefur unnið ötullega að því að tryggja það að börn og ungmenni í sveitarfélaginu geti stundað íþrótta- og tómstundastarf með veglegri hækkun á tómstundastyrk og þeirri breytingu að börn frá 6-18 ára eigi rétt á styrknum. Tillögur okkar um hækkun og breytingu á aldursbili voru samþykktar einróma í bæjarstjórn. Einnig tillaga Framsóknarmanna um að skólagögn séu útveguð af skólanum án endurgjalds og gjaldfrjáls ávaxtabiti í grunnskólum.
Við viljum koma myndarlegar til móts við foreldra og börn í dreifbýli vegna aksturs í tengslum við íþrótta- og tómstundastarf til Hafnar.

Unga fólkið er auðlind

Mikill kraftur hefur verið í starfi ungmennaráðs á undanförnum árum. Síðustu tvö ár hafa áheyrnarfulltrúar ungmennaráðs átt rétt til setu í nefndum sveitarfélagsins. Framsóknarmenn vilja auka markvisst samstarf milli ungmennaráðs og bæjarráðs. Byggja þarf upp farveg fyrir aukið samtal og samráð þarna á milli til hagsbóta fyrir samfélagið og þá sem munu síðar taka við stjórnartaumum samfélagsins.

Stöndum vörð um byggðina okkar

Sveitarfélagið okkar er einstakt, stórt og víðfeðmt og geymir margar af helstu perlum íslenskrar náttúru. Aðdráttarafl þess er sterkt, aðgangur að því greiður enda flykkjast hingað hundruð þúsunda ferðamanna allan ársins hring. Sveitarfélagið þarf að standa vörð um þau fjölmörgu fyrirtæki sem sprottið hafa upp í tengslum við ferðaþjónustuna og hlúa að rekstarskilyrðum þeirra. Landbúnaður hefur átt undir högg að sækja síðustu áratugina og nú hallar verulega undan fæti í sauðfjárbúskap. Forsvarsmenn sveitarfélagsins verða að taka virkan þátt í umræðu um framtíð greinarinnar og í mótun tillagna um hvernig hægt er að koma til móts við þær fjölskyldur sem eiga allt undir þessari atvinnugrein.

Aukin afurðavinnsla í héraðinu

Ein leiðin er að bændur hafi aðstöðu til að vinna sjálfir afurðir úr því kjöti sem sem þeir framleiða. Matarsmiðjan á Höfn getur leikið þar lykilhlutverk sem og sá markaður sem hefur skapast vegna aukins fjölda ferðamanna. Ef hver og einn af þeim 735.000 ferðamönnum sem koma á svæðið borðar hér tvær til þrjár máltíðir úr staðbundnu hráefni þá mun það styrkja framleiðslu heimamanna sem um munar. Við þurfum því að tengja veitingamenn og matvælaframleiðendur á svæðinu betur saman. Sveitarfélagið og atvinnulífið þarf að snúa bökum saman og nýta þau tækifæri sem ferðaþjónustan og uppgangur hennar getur haft fyrir atvinnulífið í heild sinni.

Þjónusta við dreifbýlið

Sveitarfélagið verður að vera meðvitað um sérstöðu svæðisins og þær miklu vegalengdir sem íbúar þurfa að aka til að sækja alla þjónustu. Stytting vegalengda innan sveitarfélagsins eru því brýnt hagsmunamál íbúa. Sorpmálin, skipulag við hreinsun rotþróa og fleiri slík mál þarf að skipuleggja upp á nýtt með þarfir íbúa í dreifbýli í huga.

Sterkari stjórnsýsla

Fáum við umboð til mun á fyrsta fundi bæjarstjórnar verða lögð fram tillaga um að auglýst verði eftir bæjarstjóra og bæjarráði falið að halda utan um þá vinnu. Við munum fara vel yfir mannauðsmál hjá sveitarfélaginu og styrkja með því þá þætti þar sem álagið er mikið og úrbóta þörf til eflingar þjónustu, viðmóti og styrk sveitarfélagins.
XB

Ásgerður K. Gylfdóttir 1. sæti,
Ásgrímur Ingólfsson 2. sæti,
Erla Þórhallsdóttir 3. sæti,
Björgvin Óskar Sigurjónsson 4. sæti
á lista Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra