Hver er Sjonni bæjó?

0
546

Sigurjón Andrésson er nýorðinn bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði. Okkur langaði að kynnast honum betur þannig við kíktum í heimsókn í Ráðhúsið og fengum að spjalla við hann.
Sigurjón Andrésson er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann hefur sinnt ýmsum störfum, til að mynda fór hann ungur á sjó, vann í bakaríi og í kjölfarið lauk hann bakaranámi. Síðar fór hann í fjármálageirann og gegndi fjölbreyttum störfum innan hans og víðar. Hann kláraði nám við mannauðsstjórnun, verkefnastjórnun og meistaranámi í viðskiptafræði, MBA. Sigurjón er giftur og á tvær dætur.

,,Að vera bæjarstjóri er mjög
fjölbreytt og enginn dagur er eins.’’

Það sem Sigurjóni þykir erfiðast við starfið er fjarlægðin frá fjölskyldunni. Honum finnst aftur á móti skemmtilegt hve vel íbúar sveitarfélagsins hafa tekið á móti honum. Hann segir öll sín samskipti við bæjarbúa hafi verið á ánægjulegum nótum og fyrir það er hann þakklátur.
,,Að vera bæjarstjóri er mjög fjölbreytt og enginn dagur er eins, það einkennist af fjölbreyttum samskiptum við stóran hóp fólks en í stórum dráttum má segja að ég sé stöðugt að ryðja hindrunum úr vegi fyrir mitt fólk og berjast fyrir hagsmunum og bjartri framtíð Hornafjarðar. ” sagði Sigurjón.

Hagsmunir sveitarfélagsins

Það eru mörg spennandi verkefni í kortunum hjá sveitarfélaginu. Þar má nefna skipulagningu á nýju stóru íbúahverfi, ný hótel, nýr miðbær og fleira, en markmiðin með þessum verkefnum eru að auka aðdráttarafl sveitarfélagsins enn og laða hingað fleira fólk og bæta mannlífið. Sigurjóni þykir mikilvægt að þau verkefni sem verið er að vinna fyrir sveitarfélagið núna séu vel af hendi leyst og segir stjórn bæjarfélagsins taka alla hluti til athugunar og byggja ákvarðanir sínar á framtíðarhagsmunum sveitarfélagsins okkar.
Sigurjón álítur sig í þeirri eftirsóknarverðu aðstöðu að geta haft áhrif og fengið tækifæri til þess að leiða öflugan hóp fólks í átt að sameiginlegum markmiðum.

Sjonni rúntari
Það sem Sigurjóni finnst best við Hornafjörð er fólkið og bragurinn. Eins og flestir vita finnst honum ekki leiðinlegt á rúntinum. Honum finnst til dæmis gaman að taka bryggjurúnt á morgnana. Við spurðum Sigurjón hvern hann myndi taka á ísrúnt ef hann mætti velja hvern sem er (við bönnuðum honum þó að velja Svövu Herdísi aftur). Hann hló við og sagðist myndu bjóða okkur blaðamönnunum.
Að endingu sagðist Sigurjón vera afar ánægður með skemmtilegt viðtal. Hann fyllist endalausri bjartsýni fyrir hönd Sveitarfélagsins Hornafjarðar þegar hann sér hvað unga fólkið hérna er frábært. Það skal tekið fram að við fengum góðfúslegt leyfi Sigurjóns til þess að kalla hann Sjonna bæjó.

Höfundar: Anna Lára, Isabella Tigist, Nína, Helga, Siggerður, Marie Salm