Hver ber ábyrgðina á ruslinu í sjónum?

0
198

Það er löngu vitað að heimshöfin sjö eru full af rusli sem við mennirnir höfum í gegnum tímann losað, viljandi og óviljandi í hafið. Lengi tekur sjórinn við er eitthvað sem við höfum flest heyrt einhvern tímann á lífsleiðinni. Sjórinn við Íslandsstrendur er hér engin undantekning. Í strandhreinsunum er þumalputtareglan sú að fyrir hvern kílómetra af strandlengju sem genginn er safnast að meðaltali eitt tonn af rusli. Í venjulegum göngutúr í fjörunni er ekki óalgengt að rekast á stök stígvél, gamla tannbursta og annað plastrusl innan um skeljar og fjörugróður. Hafrannsóknarstofnun hefur lengi rannsakað sjóinn og hafsbotninn í kringum landið og er staðreyndin sú að langmest af rusli í sjónum í kringum Ísland eru veiðarfæri. Meginuppistaða þessara veiðarfæra er plast, sem svo liggur lengi, jafnvel áratugum saman, á hafsbotni og brotnar niður, með tilheyrandi skaða fyrir lífríki sjávar. Nýlega rak á land á Breiðamerkursandi gömul veiðarfæri sem að öllum líkindum hafa legið á hafsbotni í nokkra áratugi. Innan um íshröngl, liggja þau í Vestari Fellsfjöru og eru ágætis áminning um ástand sjávar. Veiðarfærin eru af þeirri gerð sem mér fróðari menn segja að hafi lítið verið notað frá 9. áratug síðustu aldar. Þau vekja upp spurningar um það hver beri ábyrgð á ruslinu í sjónum. Til þess að fjarlægja þetta þarf að kalla til kranabíl með tilheyrandi kostnaði, sem þjóðgarðurinn getur í sjálfu sér gert, en ég velti þó fyrir mér hvort það sé sanngjarnt að landeigandi, eða í þessu tilfelli umsjónaraðili lands, þurfi að bera kostnað af því að farga rusli sem einhver allt annar aðili hefur skilið eftir sig í sjónum árum eða jafnvel áratugum áður. Þó svo að í þessu tilfelli sé ábyrgðin á að fjarlægja og farga ruslinu líklega á herðum Vatnajökulsþjóðgarðs, þá þurfum við öll að standa okkur betur í almennri umgengni um náttúruna okkar. Norræni strandhreinsunardagurinn er fyrsti laugardagur í maí ár hvert, sem í ár ber upp á 6. maí nú í ár. Ég hvet öll sem hafa tök á að taka sér göngutúr í einhverri af þeim fjöldamörgum fjörum sem finnast í sveitarfélaginu.

 Steinunn Hödd Harðardóttir Þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði