Hvaða þýðingu hefur miðhálendisþjóðgarður fyrir Sunnlendinga?

0
1320

Margir velta fyrir sér þýðingu miðhálendisþjóðgarðs þessa dagana í tengslum við frumvarp umhverfisráðherra sem byggir á afrakstri vinnuhóps sem unnið hefur með málið um langa stund og skilað af sér. Mig langar að leggja orð í belg og segja hvaða þýðingu það hefur fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð að 56% sveitarfélagsins er innan þjóðgarðs­marka Vatnajökulsþjóðgarðs.
Í fyrsta lagi þá hef ég engan Hornfirðing
hitt ennþá, sem myndi svara því í dag, 11 árum
eftir stofnun Vatnajökuls­þjóðgarðs, að best væri að hætta við að hafa þjóðgarð. Snúa til baka og leggja hann niður. Þeir eru hins vegar margir sem benda á mikilvægi þess að efla Vatnajökulsþjóðgarð enn frekar og renna styrkari stoðum undir starfsemi hans.
Í öðru lagi starfa 40 manns fyrir Vatnajökulsþjóðgarð á suðursvæði hans. Langflestir þeirra eru háskólagengnir einstaklingar, sem sinna landvörslu, fræðslu og stýringu ferðamanna um þjóðgarðinn og náttúruperlur hans. Þannig stendur þjóðgarðurinn undir umsvifamikilli atvinnustarfsemi í heimabyggð eða nærsamfélagi sínu sem er mikilvægur liður í jákvæðri byggðarþróun. Unga fólkið af svæðinu sækir aftur heim að námi loknu í þau störf sem meðal annars þjóðgarðurinn býður.
Í þriðja lagi hefur Vatna­jökulsþjóðgarður rennt stoðum undir hefðbundna landnýtingu sem er heimil rétthöfum landsins og þeim sem leyfi sækja. T.d. er hreindýraveiði og fuglaveiði leyfð innan þjóðgarðsins, sem og sauðfjárbeit, sé hún hófleg og hefðbundin. Í gegnum stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn fara svæðisráð hvers svæðis með afskipti og stjórnun um hvernig að þessari nýtingu er staðið. Svæðisráðin móta einnig skipulagsáætlanir innan þjóðgarðsins. Svæðisráðin eru fjölskipuð af heimafólki að mjög miklum meirihluta. Sem dæmi skipa 6 aðalmenn og 6 varamenn Svæðisráð suðursvæðis. Af þeim eru 10 sem búa í Austur-Skaftafellssýslu eða Sveitarfélaginu Hornafirði.
Allt tal um að sveitarfélagið missi skipulagsvaldið við að setja svæði undir þjóðgarð er því hreint og klárt bull. Miklu nær er að halda því fram að skipulagið sé nær þeim hagsmunaaðilum sem hafa með þjóðgarðinn að gera. Og í frumvarpi umhverfisráðherra hefur enn verið bætt um betur, því fulltrúar bænda eiga að eiga aðild að svæðisráðum, samkvæmt tillögu frumvarpsins.
Rökin fyrir jákvæðum áhrifum þjóðgarðs í heimabyggð eru mun fleiri, en þessi helstu sem hér hafa verið talin upp. Ég minni á að hugmyndin og frumvarpið um miðhálendis­þjóðgarð byggir á sömu hug­myndafræði og Vatnajökuls­þjóðgarður. Grasrótin ræður ferðinni og skipulagið er einskonar neðanfrá og upp „bottom up“ skipulag, þar sem vilji og aðkoma heimamanna úr grasrótinni ræður í veigamiklum atriðum.

Sæmundur Helgason, oddviti 3.framboðsins.