Húsnæðismál og byggingar

0
1126

Á síðustu fjórum árum hefur núverandi meirihluti markvisst unnið að því að ýta undir framboð á húsnæðismarkaði, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Það var gert með því að bjóða húsbyggjendum valdar gjaldfrjálsar lóðir í þéttbýlinu ásamt því að stofna félag um byggingu leiguíbúða. Nýjar lóðir hafa verið skipulagðar í Holti á Mýrum, við Hofgarð í Öræfum, við Júllatún og fyrir neðan Krakkakot. Þessi vegferð hefur skilað árangri. Nú eru milli 20 og 30 nýjar íbúðir og hús ýmist komnar eða að koma á markaðinn. Byggingarnar eru fjölbreyttar; einbýli, raðhús og fjölbýli ýmist til eigu eða leigu. Í sumar hefst bygging þriggja íbúða við Hofgarð í Öræfum, ætluð m.a. starfsfólki skólans.
Styrkur til húsbyggjenda
Í nýlegri íbúakönnun sem gerð var á Suðurlandi kemur í ljós að í Skaftafellssýslum er það skortur á húsnæði sem brennur helst á fólki. Fólk kallar eftir fjölbreyttu framboði, bæði í leiguhúsnæði og í litlum og millistórum íbúðum. Þessi vegferð að bjóða húsbyggjendum lóðir fékk á síðasta bæjarstjórnarfundi framhaldslíf um eitt ár. Hugur 3.framboðsins stendur til að útfæra leið til að styðja við húsbyggjendur í dreifbýli. Á yfirstandandi kjörtímabili veittu nágrannar okkar á Djúpavogi styrk til húsbyggjenda í formi ávísunar. Það var óháð því hvort byggt var í þéttbýlinu eða í sveitum. Sambærilega leið ætlum við að útfæra hér hjá okkur.
Fjölbreytt húsnæði
Á yfirstandandi kjörtímabili var samþykkt deiliskipulag sunnan við Skjólgarð, þar sem minni íbúðir fyrir fólk yfir 60 ára eru hugsaðar. Með því að byggja þesskonar íbúðir geta þeir sem búa einir í stóru húsnæði minnkað við sig, með minna viðhaldi og lægri fasteignagjöldum. Ungt fólk kallar eftir litlu húsnæði, eða “tiny houses”, sem fyrstu íbúð. Þannig húsnæði gæti líka hentað fólki sem vill koma og máta sig við samfélagið. 3. framboðið vill útfæra leiðir til að koma þessum áformum á legg.
Allt kjörtímabilið hefur verið unnið markvisst að því að nýtt hjúkrunarheimili verði byggt þar sem sjálfsögð mannréttindi eldri borgara eru virt. Það er einkar ánægjulegt að í dag, 17. maí verður undirritað samkomulag milli ríkisins og sveitarfélagsins um byggingu nýs hjúkrunarheimilis.
Húsnæði okkar allra
Á þessu kjörtímabili hafa Sindrabær, Ráðhúsið og Vöruhúsið fengið töluvert viðhald og endurbætur. Leikskólinn Lambhagi tók til starfa í Hofgarði haustið 2016 og Leikskólinn Sjónarhóll mun starfa í nýju glæsilegu húsnæði eftir sumarfrí. Húsnæðið við Víkurbraut 26 mun fá nýtt hlutverk í haust fyrir Félagsþjónustu fatlaðra. Þar með rætist langþráður draumur að koma þeirri mikilvægu starfsemi undir eitt þak.
Víða er verk að vinna, bæði með félagsheimilin og aðrar fasteignir. Í haust verður nýtt hreinsivirki fráveitunnar byggt í Óslandinu. Mörg mál eru komin af stað sem ekki hefur verið hægt að ljúka s.s. endurbætur á Sindrabæ, Vöruhúsi og ljúka fráveitu á Höfn. Þó margir telji fjögur ár langan tíma þá hefur sá tími liðið mjög hratt og ekki hefur gefist ráðrúm til að vinna að öllum verkefnum eins og vilji stóð til. Má þar t.d. nefna að koma húsnæði fyrir heilsurækt almennings í varanlegt horf. 3.framboðið mun setja það í forgang.

Stjórn 3.framboðsins