Dagana 21.-23. apríl fórum við allmargar konur úr Hornafirði í lúxusferð til Vestmannaeyja. Þetta var svokallað húsmæðraorlof sem á sér langa sögu. Brunað var á nokkrum bílum uppúr klukkan átta á föstudagsmorgni og ekið sem leið liggur að Suðurvík þar sem var stoppað og borðaður hádegismatur. Við fórum þennan dag í dásemdarveðri sem lék við okkur allan daginn alla leið. Því næst var stoppað í Reynisfjöru þar sem margt var um manninn víðsvegar úr heiminum. Gaman hvað margir vilja heimsækja okkur og virðast kunna að meta landið okkar. Áfram var haldið í suðurátt og stefnan tekin í Landeyjahöfn, en þaðan siglir Herjólfur til Vestmannaeyja.Létt var yfir hópnum og við hlökkuðum til að koma til Eyja. Siglingin var notaleg og tók aðeins um hálftíma. Svo var komið á leiðarenda og þar tók Guðbjörg Jónsdóttir á móti okkur og vísaði veginn á hótelið okkar. Þegar aðeins hafði verið pústað var strollað í bæinn og við sinntum okkar erindum og var allsstaðar vel tekið. Um kvöldið var farið í pizzuhlaðborð og allir voru kátir. Næsta morgun eftir góðan morgunverð beið okkar rúta með leiðsögumanni, henni Ragnheiði. Hún sýndi okkur alla helstu staðina og kryddaði ferðina með góðum sögum af mönnum á málefnum. Við fórum á byggðasafn Vestmannaeyinga, Sagnheima, og þar fengu að minnsta kosti sumar okkar hugmyndir fyrir væntanlegt byggðasafn okkar Hornfirðinga. Eldheimar voru næstir og upplifun er að koma þar. Sjón er sögu ríkari um þetta mikla gos í byggð árið 1973 sem breytti lífi margra. Að lokinni yfirferð þar var okkur boðið á efri hæðina og þar boðið uppá veitingar og hressan gítarleikara þar sem við tókum lagið og skemmtum okkur vel. Síðdegis var frjáls tími sem hver nýtti að eigin ósk.Kvöldverðurinn var á veitingahúsinu Einsa kalda og þar var stórveisla.Við fórum svo frá Eyjum um hádegi á sunnudeginuum. Þá rigndi. Við vorum komnar stuttu seinna í land og ókum að Hótel Önnu þar sem við fengum hádegismat og þar var líka tekin hópmynd af okkur. Þessi ferð var yndi frá upphafi til enda. Við þökkum skipuleggjendum okkar þeim Sigurlaugu, Eydísi og Steinvöru. Þær eiga heiður skilinn fyrir frábæra vinnu og útsjónarsemi. Svo ber sannarlega að þakka sveitarfélaginu fyrir að styrkja ferðina. Síðast en ekki síst þökkum við þeim konum sem sáu um aksturinn og komu öllum heilum heim. Kærar þakkir fyrir okkur.
Fyrir hönd hópsins. Guðrún Ingimundardóttir