Humarhátíð 2018

0
3788
Metþátttaka var í Kassabílarally Landsbankans

Venju samkvæmt var Humarhátíð haldin á Höfn í Hornafirði síðustu helgi júnímánaðar.
Í ár var hátíðarsvæði myndað á grænum bletti á íþróttasvæði bæjarins, við ærslabelginn.
Stórt og mikið tjald var reist, sölubásar og svið fært á svæðið og hoppukastalar blásnir upp auk þess sem söluaðilar og matarvagnar voru boðnir velkomnir. Úr varð þétt og gott hátíðarsvæði sem margir sóttu heim enda mikið í boði og fjölbreytt dagskrá.
Úrvalslið hornfirskra listarmanna og sjálfboðaliða auk fjölda fyrirtækja og félagasamtaka lagði sitt af mörkum í dagskránni og skemmti gestum hátíðarinnar með ýmsum hætti. Framlag íbúa í hátíð sem þessa er ómetanlegt enda er bæjarhátíðin haldin af Hornfirðingum fyrir Hornfirðinga og því er í okkar höndum, sem samfélag, að gera hátíðina eins flotta og skemmtilega og við viljum hafa hana.
Humarhátíðarnefnd 2018 tók við keflinu af Ungmennafélagi Sindra fyrir um tveimur mánuðum síðan. Áskorunin var stór enda mikil vinna sem liggur að baki skipulagningu hátíðar sem þessarar auk þess sem öll tilheyrandi verkefni voru unnin í sjálfboðastarfi í eigin tíma og hefur því lítið annað komist að undanfarnar vikur hjá nefndarmönnum.
Uppskera erfiðisins var vel þess virði og er Humarhátíðarnefnd 2018 himinlifandi með hvernig til tókst. Hátíðin vakti mikla lukku og gaman hefur verið að heyra jákvætt viðhorf íbúa til hennar.
Nefndin lagði metnað í að hafa samband við alla tónlistarmenn, félagasamtök og fyrirtæki á svæðinu og bjóða Hornfirðingum til þátttöku á hátíðinni og erum við ánægð að allir komust að sem vildu og fleiri voru til en búnir að lofa sér í annað enda fyrirvarinn stuttur.
Hátíð sem þessa er ekki hægt að halda án hjálpar frá styrktaraðilum og sjálfboðaliðum og vill nefndin nota tækifærið og þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg fyrir sitt framlag.
Margt smátt gerir eitt stórt og það sannaðist um helgina hversu megnug við erum þegar við leggjumst öll á eitt. Humarhátíðarnefnd 2018 hefur fulla trú á að næsta ár gangi enn betur og skorum við á íbúa að taka frá helgina 28.-30. júní 2019 og hugsa “hvað get ég lagt af mörkum fyrir mitt samfélag/ mína bæjarhátíð??”
Humarhátíðarnefnd 2018 þakkar kærlega fyrir sig, nefndin mun ljúka störfum með skilum á skýrslu um gengi undirbúningsins auk hugmynda um hvernig má gera betur að ári.
Að lokum vill nefndin nota tækifærið og minna á ljósmyndakeppni Humarhátíðar 2018, ef þú átt skemmtilega mynd frá helginni sendu hana til okkar á humarhatidarnefnd@gmail.com, flottasta myndin verður valin 20. júlí og hlýtur vinningshafinn nafnbótina Ljósmyndari hátíðarinnar og fær að gjöf humaröskju.

Takk fyrir helgina Hornfirðingar!

Humarhátíðarnefnd 2018

Humarhátíðarnefndin 2018
Humarhátíðarnefndin 2018