Húlladúllan heimsótti Höfn

0
681

Sirkuslistakonan Húlladúllan heimsótti Höfn um síðastliðna helgi. Húlladúllan heitir réttu nafni Unnur María Máney Bergsveinsdóttir og er hún sjálfstætt starfandi sirkuslistakona sem er búsett á Ólafsfirði. Hún hefur starfað með Sirkus Íslands og einnig breska sirkusnum Let’s Circus. Hún hefur komið fram á ýmsum sirkussýningum í Frakklandi, Bretlandi og Mexíkó. Hún hefur lokið húllakennaranámi og sirkuskennaranámi.
Unnur var með námskeið í sirkuslistum fyrir þá sem höfðu áhuga og var afbragðs mæting, en námskeiðin voru haldin í íþróttahúsinu og voru í boði Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar. Húlladúllan hélt líka tvær sýningar fyrir Hornfirðinga, einnig í boði Menningarmiðstöðvarinnar. Á laugardagskvöldinu sýndi hún glæsilegar eldlistir á Sindravöllum og var mæting mjög góð og skemmti fólks sér vel. Svo var hún með sýninguna Ljósagull í Sindrabæ á sunnudeginum.
Myndirnar tók Tim Junge.