Hugleiðingar um skipulagsmál

0
228

Skipulagsmál eru eitt af stóru verkefnum sveitarstjórna og ef til vill það vandasamasta. Að loknum kosningum skal hver og ein sveitarstjórn, samkvæmt skipulagslögum, meta hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulag viðkomandi sveitarfélags.
Nýkjörin bæjarstjórn í Sveitarfélaginu Hornafirði hefur metið þetta og ákveðið að endurskoða skuli gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins. Ástæða er til þess að fagna þessari ákvörðun og vænti ég þess að almennt verði vandað til verka við þessa vinnu m.a. með því að horfa til langs tíma, taka sem flesta valkosti til skoðunar, eiga gott samstarf og samráð við okkur íbúa.
Undirritaður er íbúi í Sveitarfélaginu Hornafirði og er áhugamaður um skipulagsmál og vill gjarnan leggja sitt af mörkum til þess að örva skoðanaskipti og umræður um skipulagsmál sveitarfélagsins. Af fundargerðum Umhverfis- og skipulagsnefndar, bæjarráðs og bæjarstjórnar má ráða að vinna við endurskoðunina sé hafin. Í fundargerðunum er ekki að finna upplýsingar um hvað hefur verið gert nú þegar annað en að ákveðið var að halda vinnufund í október og fyrirliggjandi er minnisblað dags.27.okt.2022 unnið af ráðgjafafyrirtækinu ALTA: „Íbúðabyggð á Höfn, möguleg viðbrögð við lóðaskorti og atriði til skoðunar“. Í minnisblaðinu er annars vegar fjallað um leiðir til þess að bregðast við lóðarskorti á Höfn og hins vegar að móta sýn til lengri tíma í þróun bæjarins. Til þess að bregðast við núverandi lóðarskorti leggur ALTA til að deiliskipuleggja lóðir á IB5 norðan tjaldsvæðisins. Í minnisblaðinu er greint frá því að samkvæmt nýlegum athugunum sé Leirusvæði 2 ekki tækt til þess að byggja á. Hvað varðar sýn til lengri tíma er tiltekið að æskilegt sé að væntanleg byggð á IB5 teygi sig nær Sílavíkinni en gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir og að finna þurfi heppileg not fyrir Leirusvæði 2. Mér kemur á óvart að búið sé að úrskurða Leirusvæði 2 óbyggilegt. Svæðið er sama leiran og Leirusvæði 1 sem nú er fullbyggt af einbýlis- og fjölhúsum Ég átta mig ekki á hvers vegna ekki er hægt að grunda hús á Leirusvæði 2 á sama hátt og gert hefur verið á Leirusvæði 1 með góðum árangri. Að hverfa frá því að byggja íbúðir á Leirusvæði 2, að virðist, á grundvelli órökstuddra fullyrðinga er ekki verjandi. Minnisblaðið er rýrt hvað snertir ábendingar um valkosti í endurskoðun á skipulagi fyrir Höfn og gagnast því lítt sem innlegg í umræðu um stefnumarkandi ákvarðanir. Áður en lengra er haldið í skipulagsvinnunni þarf að skyggnast um vítt og breitt með þátttöku sem flestra m.a. íbúa. Í þessu sambandi eru eftirtaldar ábendingar um valkosti sem eðlilegt er að taka til vandaðrar athugunar í endurskoðunarferlinu:

  1. Að endurnýja ekki leigusamning á tjaldsvæðisreitnum og skipuleggja hann fyrir íbúðabyggð.
  2. Að gera ráð fyrir landfyllingu í Sílavík og skipuleggja íbúðabyggð þar. Líkur eru á að Sílavíkin verð þurr eftir 10-15 ár að óbreyttu m.a. vegna landris (1,5 cm/ár).
  3. Að skipuleggja lóðir fyrir atvinnustarfsemi austan Hafnarbrautar sunnan vegarins út á Ægissíðu. Engar slíkar lóðir eru nú lausar til úthlutunar norðan hafnarinnar og skorta mun lóðir innan tíðar m.a. vegna þungaflutninga, vörumiðlunar og verslunar með þungavöru. Æskilegt að minnka sem mest akstur þungaflutningabifreiða um íbúðabyggð.

Af fundargerðum er ekki að sjá að vinnufundur sem ákveðið var að halda í október hafi verið haldinn og þess vegna ekki unnt að hafa skoðun á afurð hans. Eins og ég tilgreini hér að framan vænti ég þess að bæjarstjórnin muni leggja áherslu á að eiga gott samstarf og samráð við okkur íbúa við endurskoðun á gildandi skipulagi samkvæmt ákvörðun sinni frá 25.10.2022. Til þess að þetta gangi eftir þarf að ætla verkefninu tíma og eflaust mun einhverjum þykja vinnugangurinn of tímafrekur en þá ríður á að hafa hugfast að lýðræðið tekur tíma.

Höfn í nóv. 2022
Ari Jónsson