Hreyfiseðill

0
447
Portrait of an athletic man stretching legs before exercise outdoors. Sport and healthy lifestyle.

Hvað er hreyfiseðill?

Hreyfiseðill er eitt af meðferðarúrræðum sem heilsugæslan bíður upp á. Með hreyfiseðli gefst lækni eða hjúkrunarfræðingi möguleiki á að ávísa hreyfingu til þeirra sem þau telja að hreyfing gagnist sem meðferð við heilsufarsvandamálum. Í kjölfar er viðkomandi boðið að koma í tíma hjá hreyfistjóra (sjúkraþjálfara). Hlutverk hans er að ræða við viðkomandi um hreyfingu og möguleikann á því að nýta hreyfingu sem meðferð við vandamálum hans.

Hvað er ætlast af viðkomandi?

Eftir að læknir eða hjúkrunarfræðingur hefur stuttlega kynnt hreyfiseðilinn og viðkomandi hafi tekið ákvörðun um að þiggja þetta meðferðarúrræði, er viðkomandi beint til hreyfistjóra. Viðtalið við hann tekur um 1 klst og felst í samtali og einnig er boðið í viðeigandi mælingar s.s. 6 mín. göngupróf, blóðþrýstingsmælingu o.fl. Hreyfistjórinn setur upp æfingaráætlun í samráði við viðkomandi. Jafnframt er boðið upp á eftirfylgd hreyfistjórans í gegnum heilsuveru og tölvupóst. Viðkomandi getur alltaf hætt eftirfylgninni hvenær sem hann kýs.

Hvaða úrræði eru í boði?

Mikilvægt er að velja sér hreyfingu sem byggir á áhuga skjólstæðings og getu. Hreyfing getur verið margskonar og getur verið allt frá 15 mínútum upp í 1-2 klukkustundir. Dæmi um hreyfingar sem hægt er að stunda en listinn er ekki tæmandi
Almennt:
Ganga, stigaganga, garðvinna, þrekhjól eða hjól, stafganga
Þolþjálfun:
Rösk ganga, stafganga, hjól, sund, róður (róðratæki), fjölþjálfi /stigvél/ skíðavél, hlaup / skokk, skíði / skautar, vatnsleikfimi, leikfimi / þolfimi / dans, bolta- og spaðaíþróttir
Styrktarþjálfun:
Með eigin líkamsþyngd sem mótstöðu, með teygju sem mótstöðu, með lóð / tæki sem mótstöðu, pilates
Hvað segja rannsóknir?
Skipulögð hreyfing er öflugt meðferðarúrræði til að vinna á sjúkdómum og sjúkdómseinkennum eins og langvarandi verkjum, kvíða, depurð, sykursýki, offitu, kransæðasjúkdómum, hjartabilunareinkennum, afleiðingum lungnaþembu, háum blóðþrýstingi, hækkaðri blóðfitu svo eitthvað sé nefnt.
Umfangsmikil vísindaleg þekking er fyrir jákvæðum áhrifum hreyfingar á hina ýmsu sjúkdóma sem m.a. hefur komið fram í rannsóknum Pedersen, B.K. og Saltin, B Scand J Med Sci Sports 2006 og Blair et al JAMA 1996. Á töflunum hér má sjá dæmi um jákvæð áhrif hreyfingar á háþrýsting (tafla 1) annars vegar og langvinna lungnateppu (tafla 2) hins vegar.

Einar Smári Þorsteinsson, hreyfistjóri hjá heilsugæslunni HSU