Hornfirskt grænmeti frá Hólmi

0
866

Við Guðrún og Magnús, eða Gunna og Maggi eins og flestir þekkja okkur, rekum gistingu í Hólmi og veitinga/brugghúsið Jón Ríka. Ásamt því eigum við kindur og önnur dýr bæði til ánægju og nytja.
Líkt og svo margir aðrir í ferða­þjónustugeiranum, horfðum við sl. vetur á afbókanir renna í gegnum tölvupóstinn eins og vatn úr krana. Engin leið var að stöðva þá bunu.
Framtíðarhorfur voru ekki bjartar, óvissan mikil og engar tekjur sýnilegar í einhverja mánuði. Þá er um tvennt að gera: leggjast upp í rúm, breiða yfir haus og gefa skít í allt, eða setjast yfir kaffibolla og reyna að finna leiðir bæði til að reyna að skapa tekjur og ekki síst til að bjarga andlegri hlið.
Við völdum kaffi og að spekúlera. Yngsta dóttir okkar, Arndís Ósk sem er við nám í HÍ, var með okkur í þessum kaffipásum og er búin að vera okkar helsta stoð og stytta í gegnum þetta ævintýri og lagt til óþrjótandi hugmyndir.
Grunnhugmynd var að nýta það sem við ættum: þekkingu, land og byggingar. Og ekki fara út í nein kostnaðarsöm innkaup.
Fyrir um 30 árum reyndum við fyrir okkur í grænmetisrækt og fannst það virkilega gaman. Síðan tóku við aðrir tímar og önnur tækifæri og oft höfum við átt grænmetisgarð á sumrin, en í smáum stíl síðastliðin ár vegna anna við ferðaþjónustuna.
Núna var allt í einu kominn tími upp í hendurnar á okkur sem ekki hafði sést í mörg ár, meira að segja tími til að setjast niður, tala saman, láta sig dreyma og drekka extra mikið af kaffi.
Eftir töluvert marga bolla tókum við þá ákvörðun að gera nokkra smágarða og setja niður grænmeti bæði fyrir okkur, veitingastaðinn og til sölu ef umfram væri. Þar með hófust framkvæmdir við að girða og vinna garðlandið, ásamt því að huga að sáningu.
Þrátt fyrir COVID – 19 þá þarf víst mannkynið alltaf að næra sig.
Veitingastaðurinn var lokaður fram í lok júní og hann gerður að uppeldisstöð fyrir kálplöntur og aðsetur fyrir kartöflur til að spíra. Þær plöntur sem þarna dvöldu nutu þeirrar sérstöðu að vaxa upp við hljóðfæraleik, því með reglulegu millibili voru hljómsveitaræfingar á kvöldin fyrir þær. Við erum ekki í vafa um að það jók spírunar og vaxtarhraðann til muna.
Tónlistarflutningur fer því án efa undir liðinn áætlaður kostnaður líkt og áburður og fræ næsta vor.
9 tegundir af kartöflum voru settar niður og reyndist uppskera að öllu jöfnu mjög góð þótt hún væri misjöfn eftir tegundum. Við höfum virkilega dellu fyrir mismunandi kartöflutegundum, og vorum í trylltri leit að útsæði í vor.
22 tegundir af mismunandi grænmeti voru einnig sett í garða. Til öryggis keyptum við nú samt nokkrar plöntur í Dilksnesi ef uppeldisræktun brygðist. En allt gekk nú samkvæmt óskum. Öllum kartöflum, plöntum og fræjum var potað niður með höndunum. Hið sama á við um uppskerutímann. Guðsgafflarnir bara notaðir. Við fluttum okkur því yfir á fornöld í vinnubrögðum. Það var skriðið á hnjánum með skít undir nöglum, en allt var gert með ást og umhyggju 🙂
Í sumar fylltist einnig húsið okkar af tómataplöntum forræktuðum á stúdentagörðunum og kryddjurtum, svo það lá við að við þyrftum sveðju til að komast í gegnum frumskóginn á morgnanna. Þegar leið á sumarið stunduðum við sultugerð ásamt alls kyns tilraunastarfsemi í niðursuðu, krydd – og sýrópsgerð.
Við héldum opið kaffihús um helgar ásamt því að hafa svokallaðan bændamarkað í leiðinni með þessum afurðum. Þetta mæltist vel fyrir og erum við heimamönnum ákaflega þakklát fyrir þann stuðning og góðar viðtökur.
Núna í haust höfum við fært okkur með markaðinn út á Höfn. Á meðan uppskera endist munum við vera undir vængnum á fjölskyldunni okkar á veitingastaðnum ÚPS varðandi söluaðstöðu.
Ferðaþjónustutímabilið var stutt og snubbótt, og enn er kominn tími mikillar óvissu og tekjuleysis, en þrátt fyrir það erum við farin að hlakka til vorsins. Viljum helst bara sleppa vetrinum. En það verður mikið spáð og spekúlerað hvaða fræjum verður potað niður þegar hækka fer sól. Vetrartíminn verður sennilega nýttur í matvælatilraunir sem Hornfirðingar fá að fljótlega að smakka. Við ætlum bara að reyna halda áfram að vera bjartsýn og láta okkur dreyma, þrátt fyrir þennan djúpa dal sem við svo mörg erum að þræða.
Vörum okkur á veirunni og umfram allt verum góð við náungann.
Baráttukveðja úr sveitinni.