Hornfirðingar í hátíðarskapi

0
1162
Leikhópurinn Lotta skemmti börnunum

Nú er allt að smella saman vegna Humarhátíðar 2019 sem haldin verður hátíðleg 28. – 30. júní. Fjölmargir hafa sett sig í samband við Humarhátíðarnefndina og boðið fram krafta sína í fjölbreyttu formi, einnig hefur nefndin haft samband við marga og alltaf fengið jákvætt og gott viðmót. Við treystum á að Hornfirðingar leggi okkur lið þegar kemur að því að reisa og fella hátíðartjaldið, eins og í fyrra en hátíðin í ár nýtur góðs af unglingalandsmóti UMFÍ sem er á Höfn í sumar og fengum við landsmótstjaldið lánað. Hátíðin verður því öll hin glæsilegasta og ekki síðri en í fyrra þegar hátíðin fór fram úr öllum okkar væntingum.
Humarhátíðin í ár verður með svipuðu sniði og hátíðin í fyrra, auglýst var eftir áhugasömum þátttakendum fyrr í vor og margir sem svöruðu kallinu. Nú er svo komið að öllum kofum sveitarfélagsins hefur verið ráðstafað í veitinga- og matsölu, nokkrir matvagnar hafa einnig boðað komu sína og enn er í boði að bæta við söluborðum í hátíðartjaldið. Einnig verður skottsalan á sínum stað en eins og annað þá er það fyrstur kemur / fyrstur fær reglan sem er við lýði og því mikilvægt að staðfesta þátttöku sína með tölvupósti á humarhatidarnefnd@gmail.com.
Humarsúpan verður á sínum stað um allan bæ föstudagskvöldið og í ár verða einnig pallaparty víðsvegar um bæinn, þar geta einstaklingar eða nágranar boðið gestum og gangandi í heimreiðina, á pallinn eða í garðinn og gert sér glaðan dag saman, enn er hægt að bæta við pallapartyum og skorum við á glaðværa Hornfirðinga að hafa samband og bjóða á pallinn.
Dagskrá hátíðarinnar er einnig að verða klár og munum við birta hana sem fyrst á facebook-síðunni ,,Humarhátíð á Höfn’’. Það gleður okkur mikið að segja frá því að allir heimamenn sem sýndu áhuga á að koma fram á hátíðinni hafa verið bókaðir og er dagskráin full af úrvalsliði en allir listamenn sem koma fram á hátíðarsviðinu tengjast Hornafirði á einn eða annan hátt.
Hverfakeppnin og best skreytta húsið verður á sínum stað og hvetjum við alla til að hreinsa nærumhverfi sitt og skreyta bæinn. Nefndin vill einnig nota tækifærið til að þakka allar góðu móttökurnar á undirbúningstímanum, við hlökkum sannarlega til Humarhátíðar 2019.

Humarhátíðarnefnd 2019
Guðrún Ásdís
Jónína Kristín
Kristín Guðrún
Kristín Vala
Steinunn Hödd