Hornafjörður, náttúrulega! komið á flug

0
163

Nú er verkefnið Hornafjörður, náttúrulega! komið vel af stað og hafa fulltrúar stofnana sveitarfélagsins hafið vinnu við að skilgreina áherslur sinna stofnana í takt við nýju heildarstefnu sveitarfélagsins. Fyrsta skref þeirrar vinnu var tekið á sameiginlegri vinnustofu þar sem 46 fulltrúar starfsmanna sveitarfélagsins komu saman í Vöruhúsinu til að rýna starf sitt út frá markmiðum stefnunnar. Verkefnastjórar Nýheima þekkingarseturs hafa tekið saman niðurstöður þeirrar vinnu. Vinnustofan heppnaðist í alla staði vel og er afurð hennar yfir 500 góðra hugmynda og tillagna að aðgerðum og verkefnum sem stofnanir sveitarfélagsins geta unnið að. Marsmánuður verður nýttur í vinnufundi í hverri stofnun þar sem starfsfólk mun ákveða áherslur og aðgerðir fyrir sína stofnun til að vinna að næstu mánuðina. Fyrsti átaksmánuður ársins í tengslum við verkefnið verður haldinn í apríl sem helgaður verður umhverfis- og loftslagsmálum. Í þeim mánuði mun því sveitarfélagið allt vinna að verkefnum og aðgerðum sem tengjast málefninu á einn eða annan hátt.
Þó að verkefnið sé á þessu fyrsta ári sérstaklega miðað að starfsemi stofnana þá er það um leið eign samfélagsins alls. Það felur því jafnframt í sér kynningu og miðlun til allra íbúa og viljum við sem að verkefninu stöndum fá sem flesta íbúa til þátttöku í viðburðum og aðgerðum þess. Við tökum öllum hugmyndum og ábendingum fagnandi, hafa má samband við verkefnastjóra í gegnum tölvupóst á natturulega@hornafjordur.is. Einnig hvetjum við alla til að fylgja okkur á samfélagsmiðlum verkefnisins.

Fyrir hönd verkefnastjórnar Hornafjörður náttúrulega!
Kristín Vala Þrastardóttir