Hornafjarðarfljót

0
1460

Brátt mun gamla brúin yfir Hornafjarðarfljót ljúka sínu hlutverki þegar ný lega Hringvegarins með nýrri brú verður tekin í notkun, sem áætlanir gera ráð fyrir að verði árið 2024. Ákveðið var að setja brúna framar í forgangsröðun framkvæmda með tillögu í samgönguáætlun sem undirritaður lagði fram haustið 2019. Ávinningurinn af breyttri forgangsröðun er umtalsverður. Ný brú yfir Hornafjarðarfljót styttir hringveginn um tæpa 12 km og fækkar einbreiðum brúm á honum um 3. Þar að auki er verið að losa um fjórar einbreiðar brýr á Hringveginum frá Brunná að Steinavötnum, ýmist búið eða klárast á þessu ári.

Kvennakór Hornafjarðar

Gamla brúin sem er 60 ára gömul á þessu ári er barn síns tíma, einbreið með óslétt brúargólf og úr sér gengin. Ég skil mjög vel íbúa í Sveitarfélaginu Hornafirði sem eru búnir að bíða lengi og eru að vonum orðnir óþreyjufullir eftir nýrri brú yfir Hornafjarðarfljót. Framtak Kvennakórs Hornafjarðar var því stórskemmtilegt þegar þær vöktu athygli á einbreiðum brúm sem því miður eru ennþá á Hringveginum og öðrum fjölförnum þjóðvegum.

Endurreisn

Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkis­stjórnar var kveðið á um endurreisn íslenskra samgönguinnviða þar sem uppbyggingu væri hraðað, bæði í nýbyggingu og viðhaldi. Frá því ég tók við embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa framlög í samgönguframkvæmdir aukist hratt.
Farið verður í færslu hringvegarins og byggingu nýrrar brúar yfir Hornafjarðarfljót á grundvelli nýrra laga um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir. Með því fæst aukið fjármagn til samvinnuframkvæmda til viðbótar við ríkisframlagið sem flýtir uppbyggingu mikilvægra samgönguinnviða enn frekar, styttir vegalengdir og eykur umferðaröryggi. Í öllum framkvæmdunum munu vegfarendur hafa val um aðra leið og greiða ekki gjald á þeirri leið. Hringvegur um Hornafjarðarfljót er eitt af þeim verkefnum og verður fyrst í röðinni.
Vegagerðin vinnur nú að undirbúningi útboðs. Leitað er eftir aðilum sem hafa áhuga á að semja við Vegagerðina og leggur ríkið til allt að 50% af áætluðum framkvæmdakostnaði. Útboðsferlið hefst á vormánuðum svo framkvæmdir geti hafist fyrir árslok 2021.

Þremur árum síðar

Ég hlakka til þess dags þegar nýja brúin verður opnuð, mun samgleðjast og ganga yfir brúna með íbúum sem hafa verið ötulir baráttumenn um nauðsyn þess að útrýma einbreiðum brúm til aukins umferðaröryggis.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra