Höfn framtíðarinnar-

0
103

Hvernig verður bærinn?
Hvernig viljum við að hann verði?

Skipulagi þéttbýlisins á Höfn er annars vegar stýrt með aðalskipulagi fyrir bæinn sem heild og hins vegar með deiliskipulagi fyrir einstaka reiti. Í aðalskipulagi er sett fram stefna um þróun bæjarins og ákveðið hvaða starfsemi á heima hvar, lagðar línur fyrir megin gatnakerfi og sett ákvæði um einkenni byggðar. til nánari útfærslu í deiliskipulagi.
Í yfirstandandi endurskoðun aðalskipulags Hornafjarðar er farið yfir þróun atvinnulífs, samfélags- og umhverfismála og metið hvort breyta eigi stefnu og ákvæðum aðalskipulags eða útfæra nánar, bæði m.t.t. breyttra forsendna um væntanlega þróun og til nýrra eða tiltekinna áherslumála.
Sveitarfélagið óskar nú eftir þátttöku íbúa í að móta framtíðarsýn fyrir Höfn og býður til opins fundar í Vöruhúsinu á Höfn þann 11. október nk. kl. 17:00. Þar munu skipulagsráðgjafar kynna vinnu við endurskoðun aðalskipulags og fara yfir helstu skipulagsviðfangsefni fyrir þéttbýlið á Höfn. Síðan verður umræða um viðfangsefnin í 6-8 manna hópum til að fá fram sjónarmið og hugmyndir íbúa. Efnið frá fundinum verður nýtt til þess að móta tillögu að nýju aðalskipulagi fyrir bæinn sem verður kynnt síðar í vetur og gefst þá aftur tækifæri til að koma með ábendingar og sjónarmið áður en tillagan verður fullunnin og auglýst formlega í samræmi við skipulagslög.
Samskonar fundir verða haldnir síðar í vetur þar sem málefni dreifbýlisins verða tekin fyrir.
Íbúar á öllum aldri eru hvattir til að mæta á fundinn og leggja þannig sitt að mörkum til að skapa Höfn framtíðarinnar!

Brynja Dögg Ingólfsdóttir, umhverfis- og skipulagsstjóri