Hlúum að innra starfi skólanna

0
2063

Setjum mannauðsmál í forgang
Í skólunum okkar er virkilega góður mannauður sem við viljum hlúa að. Við erum svo heppin að hafa metnaðarfullt starfsfólk sem leggur sig allt fram við að halda utan um börnin okkar og leiða þau með okkur í gegnum fyrstu árin. Menntað starfsfólk gegnir lykilhlutverki í faglegu starfi skólanna og stuðningur yfirvalda við skólastarfið þarf að vera öflugur, ekki síst hvað varðar símenntun starfsfólks og stuðning við þróunar- og umbótastarf. Því miður er mikil starfsmannavelta í skólunum og það er mikið áhyggjuefni að faglærðu starfsfólki fer fækkandi. Það verður því að setja starfsmannamálin í forgang og hlúa vel að starfsumhverfi kennara. Við munum gera það í góðu samstarfi við starfsfólk skólanna. Án þeirra verður ekki hægt að starfrækja skóla.
Árið 2014 byrjaði ég að kenna við Grunnskóla Hornafjarðar. Það sama ár var farið í mjög góða vinnu í samstarfi við leikskólana. Lögð var áhersla á lestur, lesskilning og stærðfræði. Þetta var markviss og áhrifarík vinna sem enn er unnið hörðum höndum að. Góður árangur hefur náðst með þessari vinnu og það er mikilvægt að halda vel utan um og styrkja skólana til áframhaldandi innra starfs.
Fjölmenning
Skólaumhverfið er síbreytilegt og takast þarf á við nýjar áskoranir á hverju misseri. Hornafjörður er fjölmenningarsamfélag þar sem nemendum með annað móðumál hefur fjölgað ört. Það er mjög mikilvægt að styðja sérstaklega vel við þessa nemendur og reyna eftir mesta megni að tryggja þeim móðurmálskennslu og viðhalda íslensku sem öðru tungumáli. Mikið og gott starf hefur nú þegar verið unnið með þessum hópi nemenda og áframhaldandi vinna með auknum stuðningi ætti að geta fært okkur enn lengra sem framúrskarandi skóli í fjölmenningarsamfélagi.
Gott starf í Hofgarði
Spennandi skref var tekið í vetur í Grunnskólanum í Hofgarði þar sem notast var við fjarkennslu í nokkrum greinum. Þá fá nemendur kennslu í gegnum internetið. Það voru aðeins hnökrar á netinu í fyrstu en hefur síðan heppnast mjög vel. Þrátt fyrir að þetta sé ein leið í átt að því að nemendur geti fengið fulla kennslu í sinni sveit þá höfum við þó ennþá, sem betur fer, góða kennara sem halda utan um starfið og kenna flestar greinar í skólanum. Þarna er unnið mikilvægt starf og nauðsynlegt að hlúa áfram að starfsemi skólans.
Tónskólinn og skapandi greinar
Tónskólinn er partur af skólasamfélaginu okkar og mikilvægt er að klára endurbætur á Sindrabæ með þarfir tónskólans í huga. Halda þarf vel utan um allt nám í sveitarfélaginu og bjóða upp á öflugt og fjölbreytt framhaldsnám fyrir fólk á öllum aldri. Í því sambandi þarf að auka möguleika á að nýta fjarkennslu til náms af ýmsu tagi. Í Vöruhúsinu hafa verið starfræktar hinar ýmsu smiðjur sem þarft er að styðja við og efla enn frekar, því sköpun er ekki síður mikilvæg en bóklegar greinar.
Skólarnir eru hjarta samfélagsins og eftir mikla uppbyggingu á mannvirkjum undanfarin ár ætlum við að hlúa að innra starfi skólanna ásamt því að klára nauðsynlega uppbyggingu á Vöruhúsi og tónskólanum.

Erla Þórhallsdóttir
3.sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra.