Hljómsveitin Fókus sigurvegarar Músíktilrauna

0
270

Það má með sanni segja að Hornfirðingar séu ríkir af hæfileikaríku ungu tónlistarfólki. Laugardaginn 1. apríl síðastliðinn áttu Hornfirðingar fulltrúa í tveimur stórum tónlistarkeppnum. Ísabella Tigist Feleksdóttir tók þátt í Söngvakeppni framhaldsskólanna fyrir hönd FAS þar sem hún flutti lagið all the pretty girls með Kaleo, Ísabella flutti lagið glæsilega og var FAS til mikils sóma. Rokkhljómsveitin Fókus tók þátt í hljómsveitarkeppninni Músíktilraunir það sama kvöld. Fókus samanstendur af fimm ungum tónlistarkonum: Amylee Trindade gítarleikara, Alexöndru Hernandez bassaleikara, Önnu Láru Grétarsdóttur hljómborðsleikara, Arnbjörgu Ýr Sigurðardóttur trommuleikara og Piu Wrede sem leikur á synth. Þær eru allar á aldrinum 16-18 ára og eru búnar að spila saman í eitt ár. Stelpurnar fluttu þrjú frumsamin lög og óhætt er að segja að þær komu, sáu og sigruðu. Þær tóku heim með sér þrenn verðlaun eftir kvöldið, Alexandra Hernandez og Amylee Trindade fengu verðlaun fyrir besta söng kvöldsins, Anna Lára Grétarsdóttir vann verðlaunin sem besti hljómborðsspilari kvöldsins, og til þess að kóróna kvöldið sigruðu þær í keppninni. Fókus eru svo sannarlega búin að setja sig á kortið með þessum sigri og með ferskum hljómi, unglegri orku og með óumdeilanlegum hæfileikum munu þessar efnilegu tónlistarkonur ná langt og skapa sér nafn í tónlistarheiminum. Eystrahorn óskar Fókus til hamingju með verðskuldaðan sigur og góðs gengis með framtíðar tónlistarverkefnin