Hlaupahópur Hornafjarðar

0
596
Hluti af Hlaupahóp Hornafjarðar við upphaf æfingar í september.

Ef einhver hefur velt því fyrir sér hver sé ástæða aukningar á litríkum hópum hlaupara á götum og stígum Hafnar, þá er skýringin nú augljós: Í byrjun september var stofnaður Hlaupahópur Hornafjarðar. Hópurinn er samstarfsverkefni frjálsíþróttadeildar UMF Sindra og Helgu Árnadóttur. Viðtökur við hópnum hafa farið langt fram úr væntingum og í dag eru skráðir 42 iðkendur. Það ríkir góð stemning á æfingum og iðkendur hreint frábærir í að hvetja hvorn annan og gefa af sér. Grunnurinn fyrir svona hóp var greinilega til staðar og byggir m.a. á flottu framtaki UMF Mána síðasta vetur. Markmið með hópnum er að efla og fjölga hlaupurum á Hornafirði og bæta lífsgæði með því að geta hlaupið sér til gleði og heilsubótar. Iðkendur eru fjölbreyttir og með ólíkan bakgrunn í hlaupum. En það er nú þannig við hlaupin að maður þarf ekki margt til að byrja, einfaldlega góða hlaupaskó og svo bara fara út! Smá utanumhald og prógram hjálpar nú líka til. Iðkendum er eins og er skipt upp í þrjá hópa og hver hópur fær sitt prógram fyrir vikuna. Fjöldi æfinga á viku er misjafn milli hópa en það er alltaf boðið upp á þrjár fastar æfingar. Helga er ástríðufullur hlaupari og hefur varla tekið hlaupaskóna af sér síðan hún mætti á sína fyrstu æfingu hjá Laugaskokkurum í Reykjavík, haustið 2006. Hún hefur einnig tekið þátt í þríþraut en skemmtilegast finnst henni að hlaupa í náttúrunni og vera í fjallabrölti. Helga fann hjá sér vilja og þörf til að deila reynslu sinni og hlaupagleði, sem og að skora á sjálfa sig með því að takast á við eitthvað nýtt, og fór því af stað með hópinn. Í upphafi var hópurinn auglýstur fram að áramótum en þetta frábæra upphaf er heldur betur hvatning til að halda áfram, sem og Helga hefur ákveðið að gera. Byrjendaprógram mun aftur fara í gang eftir áramót. Til viðbótar, þá verður komið á fót vetrarhlaupaseríu á Höfn, sjá auglýsingu hér í blaðinu. Vert er að geta að Berglind Steinþórsdóttir á allan heiðurinn af uppsetningu auglýsinga og hönnun merkis fyrir hópinn. Helga er auðmjúk og þakklát fyrir góðar viðtökur og hlakkar til að halda áfram að efla lýðheilsu og deila hlaupagleðinni! Nánari upplýsingar um hópinn gefur Helga í síma 888 5979 og á netfangið hlaupahopurhornafjardar@gmail.com. Áhugasamir iðkendur í sveitarfélaginu sem komast ekki á æfingar á Höfn geta haft samband við Helgu uppá að finna leið til að nálgast hópinn og æfingar.