„Hjálpum börnum heimsins“ og gakktu til liðs við okkur í Kiwanis!

0
935
Konur á kynningafundi um stofnun á Kiwanisklúbbi á Höfn

Kiwanis er alþjóðleg þjónustuhreyfing manna og kvenna sem hafa það að markmiði að taka þátt í að bæta samfélagið og láta gott af sér leiða undir kjörorðinu: „Hjálpum börnum heimsins“. Hreyfingin leggur áherslu á manngildi og eflingu félagskenndar meðal félagsmanna. Hver Kiwanisklúbbur reynir að þjóna sem best því samfélagi þar sem hann starfar. Í Kiwanis eru kvenna-, karla- og blandaðir klúbbar og er hreyfingin ávallt tilbúin að aðstoða við stofnum nýrra klúbba og taka við nýjum félögum. Það þarf aðeins að senda póst á seinars@kiwanis.is og biðja um að vera með.
Kiwanisklúbburinn Ós á Hornafirði hefur starfað í 31 ár og stendur nú til að stofna kvennaklúbb. Haldinn var kynningafundur í október með þátttöku umdæmis­stjóra og fjölgunarnefndar og Kiwanisklúbbnum Freyju á Sauðárkróki. Mikil hugur er hjá konunum um að hittast næst í nóvember og hafa nokkrar sem ekki komust á fundinn haft samband um að þær ætli að vera með. Freyjurnar uppfræddu konurnar á Höfn í gegnum netið um Kiwanis og starfsemi klúbba. Þær eru tilbúnar til að aðstoða nýjan klúbb og leiða þær í gegnum ferlið til stofnunar kvennaklúbbs. Þær ætluðu að vera á staðnum en veðrið setti strik í reikninginn. Konur í Sveitarfélaginu Hornafirði eru hvattar að senda póst á seinars@kiwanis.is ef þær vilja vera með eða leita að hópnum Konur í Kiwanis Höfn á Facebook og biðja um að bætast í hópinn.
Hvað gerir Kiwanisklúbburinn Ós fyrir samfélagið?
Kúbburinn hefur styrktarsjóð til að halda utan um ágóða af verkefnum klúbbsins. Árlega eru tíu bágstaddar fjölskyldur styrktar í kringum jólin og nýtist hluti af jólatréssölunni í það. Ós hefur styrkt grunnskólann og framhaldsskólann með veglegum gjöfum gegnum árin. Heilbrigðisþjónustan hefur fengið sinn hluta af söfnunarfé til tækjakaupa og ýmsar safnanir hafa verið til hjálpar langveikum börnum. Ágóði af árlegri jólatrjásölu, páskabingói og Groddaveislu fer í Styrktarsjóð Óss og er þaðan veitt út til samfélagsins.
Þau verkefni Kiwanis­hreyfingarinnar á Íslandi sem eru hvað þekktust er sala á K-lyklinum sem er seldur undir kjörorðinu „Gleymum ekki geðsjúkum“. Með þessu átaki hefur hreyfingin styrkt geðverndarmál frá árinu 1974 fyrir á fjórða hundrað milljóna og vakið athygli á þessum sjúkdómi sem enn í dag er oft mikið feimnismál. Síðast núna í september var Kiwanis að styrkja BUGL og PIETA-samtökin með 20 milljónum sem kom úr síðustu söfnun á K-lyklinum. Þá þekkja flestir hjálmaverkefnið þar sem markmiðið er að stuðla að öryggi barna í umferðinni með því að
gefa öllum í fyrsta bekk grunnskóla reiðhjólahjálma. Þetta var gert að landsverkefni árið 2003 og hefur aðalstyrktaraðili verkefnisins um árabil verið Eimskip.

Haukur Sveinbjörnsson sæmdur sem Heiðursfélagi í Kiwanisklúbbum Ós af forseta Óss, Jóni Áka Bjarnasyni

Á heimsvísu hefur hreyfingin unnið þrekvirki í mörgum málefnum eins og að útrýma joðskorti í heiminum, en þetta verkefni var í samstarfi við UNICEF. Hreyfingin hefur einnig unnið að stífkrampa­verkefni MNT (Maternal/Neonatal Tetanus) með UNICEF en það snýst um að lækna fæðingarstífkrampa til bjargar mæðrum og ófæddum börnum þeirra í 39 löndum. Í dag eru 12 lönd ennþá að berjast við stífkrampa en í 27 löndum hefur tekist að eyða honum og verður Kiwanishreyfingin á fullu með í því verkefni þangað til sigur hefur unnist.
Á landsvísu viljum við bæta við fleiri verkefnum í þágu barna og til að efla starf okkar og gera hreyfinguna öflugri. Því hvetjum við alla sem vilja starfa í skemmtilegum félagsskap og láta um leið gott af sér leiða að slást í hópinn. Þá vil ég þakka fyrir hönd hreyfingarinnar allan þann stuðning við safnanir og starf okkar í gegnum tíðina.

Með Kiwaniskveðju
Sigurður Einar Sigurðsson
Umdæmisritari og
félagi í Kiwanisklúbbnum Ós