Hirðingjarnir okkar, samkennd og samhjálp.

0
815

Mig langaði að koma á framfæri þökkum til Hirðingjanna frá okkur á Skjólgarði og heilbrigðisstofnuninni en Hirðingjarnir eru ávallt vakandi fyrir því hvað getur aukið vellíðan íbúa og starfsfólks á Skjólgarði og heilsugæslunni. Mig langar líka að minnast á hversu mikilvæg svona starfsemi eins og Hirðingjarnir eru, en auk þeirra eru nokkur önnur líknarfélög í samfélaginu sem láta gott af sér leiða, og er það vel. Það er ekki bara við sem þiggjum, sem njótum góðs af gjöfum Hirðingjanna, heldur hafa rannsóknir sýnt að þeir sem vinna í sjálfboðavinnu og gefa af sér hafa oftar en ekki betri heilsu en aðrir. Við getum látið það vera hvatnigu til okkar hinna, en þetta er aldeilis góð aukaverkun þess að láta gott af sér leiða og gott til þess að vita að einhver umbun er fyrir þeirra góðu verk.

Hirðingjarnir gáfu á síðasta ári mjög góðan sófa á kaffistofu heilsugæslunnar, og fer mjög vel um starfsfólk hennar í nýja sófanum. Hirðingjarnir voru búnir að horfa til þess lengi að gefa stofunni okkar á Skjólgarði andlitslyftingu með nýjum húsbúnaði og voru einbeittar á að safna fyrir því, en þær voru töluvert dýrar. Sófasettið barst svo á Þorranum, og er gríðarlegur munur að vera með fallegar, þægilegar mublur sem eru sérstaklega hannaðar fyrir hjúkrunarheimili. Nýja sófasettið fegraði stofuna okkar til muna, bæði eru þetta þægilegir stólar og svo er heildarsvipur stofunnar mun fallegri. Það eru ýmsir þættir sem leggja til vellíðunar íbúa á hjúkrunarheimili og eitt af því er fallegt umhverfi. Hirðingjarnir gáfu líka sófa og hækkanlegt skrifborð inná skrifstofu hjúkrunarstjóra, en herbergið nýtist mun betur vegna þess til fjölskyldufunda og vinnufunda. Einnig hefur herbergið nýst starfsfólki sem hvíldaraðstaða þegar því er komið við. En þetta var ekki búið. Hirðingjarnir eru náttúrulega óstöðvandi og laða einnig að sér aðra sem vilja gefa okkur gjafir. Líkur sækir líkan heim og lagði Gunnars Ásgeirsson og fjölskylda til mjög höfðinglega gjöf til Hirðingjanna til að kaupa mætti nýtt sjónvarp og hljóðkerfi. Kunnum við þeim djúpar þakkir fyrir og þarna komu Hirðingjarnir sterkir inn sem milligönguaðilar við þessa rausnarlegu gjöf. Ómetanlegt er að finna þennan góða hug frá einstaklingum í samfélaginu og er það gífurlega nærandi fyrir starfið okkar.
Við þökkum líka Guðrúnu Ingólfsdóttur, Gingó, fyrir að lána okkur samtímalist eftir sig, og er búið að vera virkilega gaman að skipta út eldri list fyrir yngri um stundarsakir.
Takk Hirðingjar fyrir að vera til og láta endalaust gott af ykkur leiða. Djúpar þakkir til ykkar.
Mig langar að fá að hnýta aftan við þetta persónulegri kveðju frá undirritaðri en ég er að hætta sem hjúkrunarstjóri á Skjólgarði og fer til annarra starfa. Ég þakka öllum þeim sem hafa tekið á móti mér hér í samfélaginu með velvild, virðingu og hjálpsemi, ég fer héðan með dulitlum trega, ríkari af reynslu en finnst einnig eins og Hornafjörður eigi alltaf dágóðan slatta í mér eftir þennan tíma.
Góðar stundir.

Fyrir hönd Skjólgarðs,
Helena Bragadóttir
fráfarandi hjúkrunarstjóri