Hinn nýi veruleiki

0
485

Er manneskjan útsjónarsöm? Já hún hefur svo sannarlega sýnt það á undanförnum mánuðum. En manneskjan er einnig félagsvera, hún þráir að vera í samskiptum við aðra, þráir að deila hugsunum sínum, vonum og þrám. Bestu stundir lífs okkar eru þegar við eigum í samskiptum við aðra, en hvað nú?
Þessi nýi veruleiki sem við höfum öll verið að læra inn á hefur kennt okkur að nýta útsjónarsemi okkar og prófa nýjar leiðir. Nýjar leiðir til að taka þátt í samfélaginu okkar og eiga í samskiptum við hvort annað. Orðin streymi, Zoom og Teams eru okkur nú jafnkunnug og símtöl og tölvupóstur.
Vegna tækninnar getum við horft framan í ættingja með myndsímtölum og getum sinnt jólagjafainnkaupum í gegnum netið í öruggu skjóli heimilisins. Við mætum á fundi á Teams og tökum þátt í allskyns samkomum gegnum streymi. Svo höfum við fengið að kveðja ættingja og vini í útförum þó við séum heima í stofu. Manneskjan er útsjónarsöm.
Eins og flestir eflaust vita þá hefur messuhald legið niðri stóran hluta ársins og því kynntust fermingarbörnin í ár þegar öllum messum og fermingum var frestað um páskana. Þegar ljóst var að ekki væri hægt að bjóða fólki í kirkjuna fóru prestar landsins að huga að því hvernig væri hægt að bera kærleiksboðskap, og ekki síst vonarboðskap Jesú Krists örugglega á borð landsmanna.
Rétt eins og margar kirkjur höfum við prestarnir hér tekið uppá því að taka upp helgistundir og streyma þeim á Internetinu. Í haust tókum við þá ákvörðun að taka upp a.m.k. eina stund í hverri kirkju í prestakallinu. Við létum ekki þar við sitja og síðasta sunnudag var sett á Internetið aðventustund prestakallsins þar sem við prestarnir fórum víða í prestakallinu milli frábærra tónlistaratriða.
Næst á dagskrá er auðvitað jólahátíðin og nú er það ljóst að ekki verður hægt að halda uppi hefðbundnu jólahelgihaldi. Ákveðið var að taka upp aftansöng í Hafnarkirkju án gest og verður þeirri athöfn streymt á aðfangadagskvöld kl. 18:00 þar sem við prestarnir, organisti og samkórinn munum syngja inn jólin. Á gamlárskvöld verður streymt frá helgistund kl. 17:00.
Við hvetjum því alla til að stilla inn á Facebook eða YouTube og fylgjast með.
Hægt er að finna okkur á Facebook undir Bjarnanesprestakall og Hafnarkirkja á Youtube.
Milli mjalta og messu
Hvað hefur á daga mína drifið og hvað hefur á daga ykkar drifið síðustu mánuði? Öll erum við að sinna hinum daglegu störfum en þó er hugsanlegt að einhverjir séu farnir að finna fyrir þreytu. Myrkrið dvelur lengur núna á þessum árstíma og á myrkrið það til að setjast einnig á sálina. Við höfum staðið okkar plikt í þessu „Covi“ og það hefur tekið á – andlega og líkamlega. Covid þreytan sem stundum hefur verið minnst getur verið farin að láta á sér kræla. Vegna þess þurfum við öll að vera dugleg að huga að okkar andlegu heilsu jafnt þeirri líkamlegu. Einnig þurfum við að vera dugleg að horfa til þeirra sem standa okkur næst. Ef við sjáum að öðrum líður ekki vel þá skulum við gefa okkur á tal við viðkomandi. Það má líka hafa samband við okkur prestana ef þið sjálf vitið af einhverjum sem þætti gott að eiga við okkur samtal því við erum alltaf til staðar ef á þarf að halda. Við erum ekki geymd inn í skáp milli messa eins og litla stelpan hélt fram hér um árið.
Það er hægt að hafa samband við okkur í gegnum tölvupóst eða í sameiginlegt símanúmer prestanna sem er 894 8881.
Nú má svo sannarlega segja að það er aldrei mikilvægara en akkúrat núna að huga vel að okkur og okkar fólki. Nú þegar hyllir undir lok „Covsins“ þá megum við ekki missa móðinn, verða kærulaus. Verum dugleg að virða allar reglur, höldum fjarlægð og berum grímur. Gerum þetta til að eiga gleðileg jól og farsælt nýtt ár. Fyrst við komumst í gegnum síðustu mánuði þá komumst við einnig í gegnum næstu vikur. Höldum í vonina og boðum kærleiksboðskapinn því það er það sterkasta sem við höfum.
Ég óska ykkur gleðilegra jóla og megið þið hafa það gott yfir hátíðarnar.

Sr. Gunnar Stígur Reynisson
Sóknarprestur
894 8881
bjarnanesprestakall@bjarnanesprestakall.is