Hestamannafélagið Hornfirðingur var þess heiðurs njótandi á dögunum að hljóta hinn eftirsótta Æskulýðsbikar Landssambands Hestamannafélaga fyrir störf í þágu Æskulýðsmála.
Mikið líf hefur færst í hestamennsku á ný í Hornafirði eftir nokkurra ára lægð. Eins og hjá mörgum öðrum hestamannafélögum hefur nýliðun verið lítil hjá Hornfirðingi, þó að aðsókn hafi verið góð á reiðnámskeiðum fyrir börn og unglinga, þá hefur sárlega vantað félagshesthús fyrir þá sem eru að byrja í hestamennsku. Félagar í hestamannafélaginu Hornfirðingi lyftu „grettistaki” í að styrkja nýliðun og um leið æskulýðsstarf hjá félaginu með því að vinna í sjálfboðavinnu við að innrétta glæsilegt félagshesthús við hlið reiðhallarinnar. Framkvæmdir hófust í nóvember 2018 og hesthúsið var tekið í notkun á fjórðungsmótinu sumarið 2019. Í hesthúsinu eru 20 rúmgóðar, eins hesta stíur, upphituð kaffistofa, snyrting, aðstaða fyrir reiðtygi, fóður ofl. Hestamannafélagið niðurgreiðir leigu fyrir börn og unglinga um 50%. Fyrstu hestarnir komu á hús þann 14. október 2019 og skipulagt æskulýðsstarf hófst í kjölfarið. Auglýst var opið hús / vöfflukaffi í félagshesthúsinu þann 20. október, öllum var boðið að kíkja í heimsókn til að skoða aðstöðuna og hestana.
Jólahittingur var haldinn í félagshesthúsinu og reiðhöllinni þann 15. desember 2019. Öllum félagsmönnum, forráðamönnum barna og unglinga á námskeiðinu var boðið að koma og horfa á sýningu hjá Snæsu og krökkunum í reiðhöllinni þar sem búið var að skreyta hestana með jólaskrauti og jólaljósaseríum. Einnig var boðið upp á heitt kakó og piparkökur í boði Nettó.
Snæsa kom aftur í heimsókn þann 10. janúar 2020 í félagshesthúsið til að aðstoða krakkana með þjálfun á hestunum í reiðhöllinni og hvetja þau til að taka þátt í reiðnámskeiði sem hestamannafélagið bauð upp á helgina 18.-19. janúar með Rósu Birnu Þorvaldsdóttur reiðkennara. Rósa Birna var bæði með meira vana krakka í einkatíma og með 5 krakka, minna vana, í hóptíma á laugardegi og sunnudegi. Síðan var stefnt að því að hún kæmi eina helgi í febrúar og eina helgi í mars með framhaldsreiðnámskeið fyrir bæði börn, unglinga og fullorðna. Vegna óveðurs féll námskeiðið niður sem átti að vera með Rósu Birnu í febrúar og í mars var reiðhöllinni lokað tímabundið í kjölfar Covid-19 faraldurs og samkomubannsins. Snæsa bauð upp á helgarnámskeið í Lækjarhúsum fyrir börn og unglinga á grunnskólaaldri. Allir krakkar á námskeiðinu fengu hesta og reiðtygi á staðnum. Fyrsta námskeiðið var haldið 29. febrúar og foreldrar skiptust á að keyra með börnin í Lækjarhús. Þátttakendur á laugardeginum voru samtals 16, og aðeins þrjú þeirra höfðu verið á reiðnámskeiði áður. Á sunnudeginum komu síðan meira vanir krakkar og þau æfðu sig í útigerðinu, þrátt fyrir gular viðvaranir vegna veðurs. Það var ekki slegið slöku við, enda áhugasamir krakkar þar á ferð.
Páskagleði Hornfirðings var haldin í reiðhöllinni þann 11. apríl 2020, þar tóku þátt nokkrir ungir krakkar, keppt var í hindrunarstökki og tímaþraut. Því miður varð að aflýsa „Opnu húsi í félagshesthúsinu” og útreiðartúr á degi íslenska hestsins í reiðhöllinni þann 1. maí vegna Covid – 19 faraldurs og samkomubanns í íþróttamannvirkjum um allt land.
Firmakeppni Hornfirðings var haldin utandyra þann 10. maí á félagssvæði Hornfirðings í ágætu veðri og þar voru ungir fulltrúar Hornfirðings sem hafa tekið þátt í æskulýðsstarfi félagsins í vetur.
Sumarnámskeið fyrir börn- og unglinga var haldið á félagssvæði Hornfirðings dagana 8.-12. júní 2020. Snæsa í Lækjarhúsum var leiðbeinandi á námskeiðinu og var með eldri krakka sér til aðstoðar. Mikill áhugi var fyrir námskeiðinu og í allt tóku alls þátt um 20 börn.
15. júní komu 50 krakkar á vegum Sindra (Leikjanámskeið) og fengu að fara á hestbak í Reiðhöllinni, Snæsa hefur sjaldan svitnað jafn mikið, en þessi dagur var í boði Hestamannafélagsins og Snæsu.
Félagsmót Hornfirðings var haldið helgina 13.-14. júní 2020 á félagssvæði Hornfirðings að Fornustekkum. Þar voru keppendur úr æskulýðsstarfinu sem kepptu í barna-, unglinga og ungmennaflokki. Einnig mættu 8 krakkar í pollaflokk.
Talsverð truflun varð á vetrarstarfi æskulýðsnefndar Hornfirðings á síðasta starfsári vegna Covid-19 faraldursins og samkomubannsins. Ýmsir viðburðir sem voru á dagskrá á starfsárinu voru felldir niður eða frestað, eins og reiðnámskeið með Rósu Birnu Þorvaldsdóttur í mars, Dagur íslenska hestsins 1. maí, sumarnámskeið í Hestheimum í júní ofl. Þrátt fyrir þetta gekk starfið ótrúlega vel og munar þar mest um frábært starf Snæbjargar Guðmundsdóttur (Snæsu) en hún sá til þess að börn og unglingar höfðu nóg fyrir stafni og síðan hefur félagshesthúsið og reiðhöllin virkilega sannað gildi sitt fyrir æskulýðsstarf hjá félaginu.
Hér hefur verið stiklað á stóru á því helsta sem gert var á starfsárinu og vonandi förum við að losna við veiruna svo hægt verði að halda þessu frábæra starfi áfram af sama krafti á næsta ári.
Ég vil fyrir hönd Hestamannafélagsins Hornfirðings færa kærar þakkir til allra þeirra sem hafa tekið þátt í þessu ævintýri, félögum, fyrirtækjum, sveitarfélaginu og öllum sem hafa á einhvern hátt komið að þessari uppbyggingu hjá Hestamannafélaginu undanfarin ár.
Hestamannafélagið Hornfirðingur óskar gleðilegra jóla og farsæls komandi ár.
Magnús Skúlason
formaður Hestamannafélagsins Hornfirðings.