Helst langar MIG aldrei að verðahlýtt á tánum aftur

0
690

viðtal við Almar Atlason listmálara

Almar Atlason, listmálari, segist hvergi hafa fengið eins höfðinglegar móttökur og í Hornafirði, hann sé haldinn athyglissýki á lokastigi, og elski umtal og áhorf. Safnvörður Svavarssafns tók hann í viðtal fyrir Eystrahorn til að kynna næstu sýningu safnsins, en líkast til hafa fjölmargir Hornfirðingar þegar orðið varir við stóra hvíta tjaldið sem stóð upp á hól í júlí og ágúst.

„Í Reykjavík og nærliggjandi sveitum er ég ætíð meðhöndlaður eins og úrhrak samfélagsins. Enn eitt lattelepjandi, sjálfskipað sjéní – og þótt ég panti mér eins vonda og óspennandi kaffidrykki og ég mögulega get. En á Hornafirði var mér tekið opnum örmum. Ég var boðinn í matarboð, mér var skutlað um sveitirnar, og jafnvel afgreiðslufólk í búðum og bensínstöðvum bauð mér símhleðslur, óveðurs-gistingar og ræddi við mig eltingaleikinn við fegurðina, landslagið, listaverkaþjófnað og önnur hugðarefni mín. Ég gerði svo mitt besta til að taka eins vel á móti Hornafirði og hann tók á móti mér en mistókst eflaust í hvívetna þrátt fyrir uppljómað þakklæti og einbeittar tilraunir.“

Almar heldur áfram að lofa Hornfirðinga þrátt fyrir tilraunir safnvarðar til að spyrja hann út í málverkin.

„Móttökur Hornfirðinga og fegurð lands og fólks stendur óneitanlega uppúr [sumrinu]. Náungakærleikur og hispursleysi sem teygir sig langt inn í lón og alveg suður fyrir Öræfi.“

Já, en málverkið? skýtur safnvörður inn. Það er það sem við ætluðum að ræða Almar.
„Það eina sem truflaði mig var margbölvað máleríið. Enginn, leyfi ég mér að fullyrða, getur fangað litadýrð jökulsins svo sannfærandi sé og fegurðin þar umhverfis er svo lamandi að erfitt er að yfirgefa morgunkaffi lautina, hvað þá lyfta pensli. En þetta eru forréttindi að mála svona úti í náttúrunni á suðausturhorninu -sama hve duglaus málarinn er, og ég fann það hvern morgun að Hornafirði skuldaði ég að gera mitt besta. Mín eftirlætis viðfangsefni voru þó gististaðir mínir. En stærstu og bestu málverkin sem ég málaði voru einskonar þakkarbréf til annars vegar Hornafjarðar, hvar ég dvaldi í tjaldi, og hinsvegar til Fagurhólsmýrar en þar tók Eva Bjarnadóttir á móti mér sem sannur höfðingi og hef ég hvergi haft það betra.“

Almari verður heitt í hamsi og rjóður í kinnum þegar hann talar um liti jökulsins og þrúgandi nærveru fegurðarinnar, en safnvörður reynir að hughreysta hann. Þótt málverkin fangi kannski ekki sjálft landið, geta þau gómað augnablik. Að lokum gefst hann upp og skiptir um umræðuefni.

„Nú vita ekki margir, Almar minn, að meðan þú dvaldir í tjaldinu varstu ekki bara að mála, heldur að lesa heildar ritsafn Þórbergs Þórðarsonar. Hvað er þín uppáhalds bók, hvað heldurðu upp á við Þórberg, var eitthvað verk eftir hann sem þú sást í nýju ljósi eftir dvölina í tjaldinu?“
Nú brosir listmálarinn kankvís.
„Þórbergur Þórðarson? Hann var spekingur. Hann var mín eina afþreying í útivist minni. Og betri kojufélaga er vart hægt að ímynda sér. Allavega ef það er hægt að loka bókinni og slökkva á síbyljunni sem maður getur sér til um að hafi staðið út úr manninum. Bréf til Láru hefur alltaf verið ein mín eftirlætis bók og ágætis blúprint fyrir það hvernig boða má fagnaðarerindi kommúnismans um sveitir landsins. Ætla má að Svavar Guðnason hafi tileinkað sér innihaldsefni hennar þegar hann tók sér frí frá málverkinu og gerðist boðberi kærleiksins og jafnaðarstefnunnar. Í þessari útlegð var það þó bókin: Indriði miðill, ævisögurit eftir Þórberg, sem sérlega náði til mín. Og þar var ekki á ferðinni einhver afturhaldskommatittur heldur séður bisnessmaður og boðberi frjálsrar verslunar beint að ofan. “Indriði var merkur maður og afbragðs eftirherma strax í æsku” eitthvað svoleiðis er hann kynntur áður en hann svo verður rammskyggn og græðir af tengingu sinni við handanheiminn á tá og fingri. Eins og títt er svo um menn sem læra að græða peninga ef andlegum málum og öðrum listum drapst hann ungur á fylleríi og annar eins miðill hefur ekki sést norðan Konstantínópel síðan.“

Safnvörður ákveður að víkja talinu aftur að listinni og spyr út í gjörninga Almars sem oft hafi gengið út á að vera fyrir augunum á fólki og beinlínis krefjast áhorfs. Almar hlær og segir:
„Ég er haldinn athyglissýki á lokastigi. Ég elska umtal og áhorf. Í fjölskylduboðum slúðra ég og hef tekið að mér það hlutverk í stórfjölskyldunni að breiða út almenna hneykslun. Ég þarf vart mat eða drykk ef ég fæ nóg lófatak eða ókvæðisorð í minn garð, slík er næringin sem ég dreg úr aðdáun og aðkasti annarra. Skiptir mig engu hvort athyglin er jákvæð eða neikvæð. En þetta er víst atvinnusjúkdómur og hef ég fyrir satt að flest starfsystkini mín í listinni þjáist af sömu lamandi athyglissýki, hroka og alhæfingapest.“

Þá spyr safnvörður út í hvort hann gæti hugsað sér að endurtaka gjörninginn eða hvort hann sé kominn með nóg af útilegu.
„Mér myndi ekki endast ævin í að fanga umhverfi Hornafjarðar og sveita. Og ég hef alltaf verið best geymdur fjarri öðru fólki að sinna fegurðinni. Því þó athyglissýkin sé ofstækisfull er einangrunin hollari menntun listamanninum en foreldramissir er aðalpersónu í fantasíubókmennt. Ég er þannig uppvíraður að ég elska einstaklinga, alla þá sem ég hef hitt og þá sérstaklega í fjarlægð, en hef megna óbeit á hverslags kreddum, félögum og hópum. Pólitík veldur mér ljótum útbrotum og þó get ég haft hana á heilanum og vörunum dögum saman mér og samborgurum mínum til ógleði og sorgar. Sérstaklega ef ég er umkringdur hópum. Ég get af öllum ofangreindum ástæðum og ótal öðrum hugsað mér að endurtaka þetta verkefni og hér eftir verður lífsgleði mín mæld í vinnu klukkutímum og tjald nóttum. Helst langar mig aldrei að verða hlýtt á tánum aftur.“

Opnun á sýningu Almars, Almar í tjaldinu verður í Svavarssafni 15. september. Almar býður Hornfirðinga kærlega velkomna á opnun, en að vera dugleg að horfa sem oftast út um gluggann í millitíðinni.