Heilbrigðisþjónusta

0
1100

Undirstaða velmegunar

Ef við ætlum að fá betri heilbrigðisþjónustu á næstu árum, verður ný ríkisstjórn sem tekur við eftir kosningar að skilja, að heilbrigði er undirstaða velmegunar og hamingju. Spítalar og heilbrigðisstofnanir þurfa að geta byggt upp mikilvæga þjónustu, mannað allar stöður og nútímavætt tæknibúnað sinn. Meirihluti landsmanna vill frekar verja almannafé í opinbera þjónustu heldur en einkarekstur og það viljum við í Samfylkingunni líka.

Samfélagsmein

Það er hneyksli að til sé fólk hér á landi sem hefur ekki efni á því að fara til læknis eða sálfræðings, að börn og ungmenni geti ekki vegna hárrar gjaldtöku fengið hjálp við geðrænum vanda, að aldraðir og öryrkjar neiti sér um tannlækningar og að veikt fólk búi við óþarfa fjárhagsáhyggjur á þeirra erfiðustu stundum. Þessu ætlum við í Samfylkingunni að breyta með ákveðnum skrefum í átt að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu strax á næsta kjörtímabili.

Aðgengi að sérfræðiþjónustu verður að tryggja um allt land. Það má gera með því að Landspítalinn skipuleggi heimsókn sérfræðinga um landið eftir þörfum og með nýjustu tækni um fjarlækningar. Þá gætu sjúklingar fengið greiningu sérfræðinga án þess að ferðast um langan veg.

Þjónusta við aldraða

Öldrun þjóðarinnar er gleðileg í sjálfri sér en hún kallar á breytta þjónustu við þá sem eldri eru. Þar fer aukin heimaþjónusta og betri heilsugæsla fremst auk uppbyggingar hjúkrunarheimila. Á Höfn í Hornafirði er það viðbygging sem er forgangsverkefni þannig að einstaklingar geti verið einir í herbergi á hjúkrunarheimilinu en þurfi ekki að tví- og þrímenna eins og í dag. Það er ekki mannsæmandi.

Lausn vandans í heilbrigðiskerfinu felst fyrst og fremst í því að ríkið styrki raunverulega rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, geri þeim kleift að halda góðum mannauði og að mæta þörfum sjúklinga um land allt. Að horfið verði frá þeim niðurskurði sem fráfarandi ríkisstjórn boðaði. Það er forgangsverkefni. Ákall almennings er um betri opinbera heilbrigðisþjónustu um allt land. Við jafnaðarmenn ætlum að svara því kalli.

Oddný G. Harðardóttir Samfylkingunni
1. sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi