Haustrigningar – Alþýðleg veðurfræði í fimm þáttum

0
846

Það leynast margir dýrgripir á bókasafni Hornfirðinga. Nýlega fann bókavörður prenteintak af revíu H.F. Reykjavíkurannáls, Haustrigningum – Alþýðlegri veðurfræði í fimm þáttum, sem var fyrst sýnd árið 1925. Giska sjaldgæf útgáfa. Reyndar eru ekki miklar upplýsingar um verkið í prentinu, hvorki minnst á höfunda né hverskonar ytri umgjörð um er að ræða. Veðurfræði í leikritaformi er heldur hvorki mikið þekkt né algeng bókmenntagrein. Það bendir til absúrd kímnigáfu, marxískrar jafnvel, sem ekki fær mikinn sess í formlegri bókmenntasögu okkar – en var vissulega til staðar.
Upplýsingarnar voru af skornum skammti en með lítilsháttar og einbeittum gúglvilja mátti finna eitt og annað – sérsaklega var fróðleg grein eftir Pál Baldvin Baldvinsson um sögu Revía í Reykjavík og birtist í Skírni árið 1980.
Revíur komu sjaldnast út á prenti, Hjá höfninni eftir Einar Benediktsson kom aldrei út, en samkvæmt greiningu Páls Baldvins á íslenskum revíum í tímabil og þjóðfélagslega og mismikla pólitíska dýpt, var Einar sá sem fyrstur skildi hlutverk formsins sem samfélagsspegils og skoðanamótandi möguleika. Hápunktur revíu Einars, sem var frumsýnd 1895, var þegar persóna kemur fram á sviðið með fánann sem höfundurinn vildi að yrði fáni hins sjálfstæða Íslands.
Sjálfstæðið var helsta deilumálið næstu árin og pólitíkin pólariseraðist; í sjálfstæðissinna og hin, ráðherra og útgerðamenn og vinnandi fólk, vinstri og hægri.
Slíkt er umhverfi revíunnar þegar Páll Skúlason, betur þekktur sem stofnandi Spegilsins, gengur inn á leikvanginn, og reynist annar höfunda Haustrigninga. Fyrsta verk hans hét Boltinn með lausa naflann var sett upp af Tennisfélagi Reykjavíkur og var vel tekið. Páll stofnaði því nýtt fyrirtæki utan um frekari leikverkagerð og sýningar. Var þannig til Hf. Reykjavíkurannáll sem mundi standa fremst í gerð revía í Reykjavík fram á 7. áratug. Páll starfaði náið með leikurum og var ávallt meðhöfundur að verkinu, í tilfelli Haustrigninga var það Gústaf Jónasson.
Ef rýnt er í heitið, Annáll og ennfremur horft til þess að á 6. áratugnum var Flosi Ólafsson orðinn mikilsvirkur í revíugerðinni, er ekki fráleitt að sjá tengingu við áramótaskaup sjónvarpsins síðar meira. Skaup slík er misauðvelt að skilja ef horft er á utan síns tíma og má sama segja um revíurnar, sem hjá Páli og félögum, voru gjarnan uppfullar af persónulegum skotum milli fólks í litlum hópi.
Annað er nokk auðskiljanlegt og tímalaust; einsog spilling embættis- og ráðamanna sem fer hæst í Haustrigningum. Þar er tildæmis verið að reyna að stofna Ríkislögreglu, einkum og sérílagi í því skyni að búa til þægilega framtíðarvinnu fyrir son eins ráðherrans. Helsti starfi lögreglunnar skal vera sá að marsera á afmælisdegi ráðherra, embættismanna og ríkustu útgerðamanna, og standa heiðursvörð fyrir utan bústaði þeirra. „Laun sínu skulu ríkislögreglumenn taka úr ríkissjóði, og er hverjum einum selt sjálfdæmi um upphæð þeirra.“ – segir 5. grein frumvarpsins til laga um varalögreglu konungsríkisins Íslands. Í 1.grein um skilyrði fyrir inngöngu í lögregluna segir að umsækjandi skuli „….eigi ógreindari en almennt er talið nægja til þess að geta orðið ráðherra.“ 1. grein og síðasta segir svo: „Lög þessi öðlast alls ekki gildi.“ – sem bæði má skilja sem tilraun til að grunda hina beittu ádeilu vel í fáránleikanum, en líka að embættismennirnar fríi sig af allri ábyrgð á eigin verkum.
Það er nokkuð sláandi að sjá talað um ríkis- og varalögreglu, sérstaklega með hliðsjón af seinna tíma síendurteknu makki íhaldsmanna í löggæslu landsins.
Helsta ádeilan beinist að því að fólki sem sækir í og stefnir til æðstu metorða sé eðlislega ekki treystandi. Þetta séu listamenn, spekúlantar og ævintýramenni – og almennt illa innrætt. Ekki er hlaupið að því fyrir lesanda dagsins í dag að vita hvenær er verið að skjóta á Sjálfstæðissinna, jafnaðarmann eða Framsóknarmann.
Annað stef í verkinu sem greina má sérstaklega tengist Grænlandi en á 3. áratug síðustu aldar bar síðast á íslenskum hugmyndum um að gera tilkall til landsins eða/og innlima það í væntanlegt sjálfstætt ríki.
Í fjórða þætti fara embættismenn í einhverskonar kynbótagjörðum til Grænlands, sem gæti stemmt við að undirbúningur við Gottuleiðangur Vigfúsar Sigurðssonar að sækja þangað sauðnaut, hafi verið í umræðunni. Þar er hittur fyrir Leifur óheppni, síðastur eftirlifandi af hinum íslenska Grænlandshópi, barnabarn Sigurðar Breiðfjörð. Þeir útskýra fyrir honum stöðu hins nýja Alþingis, sem: „…er nú á dögum einna líkast fuglabjargi, nema bara kanski ekki alveg eins hvítt.“ Leifur spyr: „Er mikill hávaði þar?“ og er svarað: „Þjer getið nærri hvort ekki heyrist eitthvað, þegar kvarnirnar og lausu skrúfurnar skella saman í einum hrærigraut.“
Í dálknum Hannes á horninu í Alþýðublaði frá árinu 1966, er eitt sönglagið úr Haustrigningum greint í tengslum við kýtingar milli ritstjóra fyrnefnds dagblaðs og síðan Morgunblaðsins, sem var gjarna vænt um brogað og bagalegt mál. Orðskrípin voru kölluð fjólur eða Valtýsfjólur eftir ritstjóranum – það þróaðist síðar meir yfir í orðið málblóm yfir það sama – sem svo er athugandi hvort megi tengja ennfremur við embættiskerfislegt rósamál nútímans þar sem reynt er að afvirkja neikvæðar tengingar við hugtök og aðgerðir með lítilsháttar orðaleikjum; sbr orðið „hagræðing í rekstri“ í stað þess að „reka fólk slyppt og snautt út á gadd!“

Það sem er síðan sérstaklega spes við þessa sjaldgæfu útgáfu revíu frá 3. áratug síðustu aldar, er að hún er svo stútfull af auglýsingum að sjaldan hefur sést annað eins. Ekki eru einvörðungu auglýsingar fyrir Onoto sjálfblekunga, Pallas saumavélar og margt fleira milli þátta – heldur auglýsingar fyrir tvær gerðar af smjörlíki á hverri einustu síðu bókarinnar. Smárasmjörlíki fyrir ofan texta og Hjartaás-smjörlíki fyrir neðan.
Þetta er svo yfirþyrmandi að þessi lesandi gat ekki annað en farið að ímynda sér að auglýsingarnar væru skop í fullu samræmi við annað efni verksins. Ef þetta var skoðað með hliðsjón af fyrnefndri grein um málblóm og nudd milli ritstjóra dagblaða sinnhvorumegin á stjórnmálaásnum, var freistandi að ætla að þessi hatramma barátta tveggja smjörlíkja ætti að vísa til hægri og vinstri.
Það reyndist ekki rétt, þessar smjörlíkistegundir voru vissulega til – og ef prentun leikverksins er sett í samhengi við „prógrömm“ sem voru prentuð með stærri leikhús- og kvikmyndasýningum, og uppfull af auglýsingum – þarf þetta ekki að vera svo skrítið.

Sumsé, alltaf áhugavert að grúska á safninu.

Gísli Magnússon