Hafið – nýr skemmtistaður opnar

0
2637
Eva Birgisdóttir og Bjarni Ólafur við barinn

Þann 12. ágúst opnaði barinn Hafið í gamla Kartöfluhúsinu á Hornafirði. Verkefnið á sér nokkuð langan aðdraganda en í vetur tók Skinney – Þinganes ákvörðun um að innrétta efri hæð Kartöfluhússins sem bar og skemmtistað. Bjarni Ólafur Stefánsson og Kristinn Þór Óskarsson héldu utan um verkefnið og fengu til liðs við sig arkitektinn Magneu Guðmundsdóttur og hönnuðinn Brynhildi Pálsdóttur en Brynhildur hefur unnið að vöruhönnun fyrir Skinney – Þinganes. Markmiðið var að innrétta rýmið á heimilislegan en framandi hátt. Staðurinn er í raun tvískiptur, annars vegar bar fyrir um 60 manns og hinsvegar veislusalur sem tekur nú um 150 manns í sæti. Þar er fyrirhugað að halda veislur og stærri viðburði í framtíðinni. Eva Birgisdóttir hefur tekið að sér reksturinn og heldur utan um daglegan rekstur.
Barinn fer vel af stað og er óhætt að segja að Hornfirðingar hafi tekið opnuninni fagnandi og þörfin til þess að skemmta sér og hitta aðra hafi verið orðin mikil.
Til að byrja með verður Hafið opið frá kl. 18:00 alla daga. Opið er til miðnættis á virkum dögum og að minnsta kosti 01:00 um helgar en oft lengur.