Gullmerki Sindra afhent

0
1476

Á dögunum veitti Ungmennafélagið Sindri tveimur félagsmönnum Gullmerki Sindra. Það voru þau Jóhanna Stígsdóttir og Gunnar Ingi Valgeirsson. Gullmerki Sindra er afhent þeim sem unnið hafa framúrskarandi störf í þágu Ungmennafélagsins Sindra. Í umsögn um þau kom eftirfarandi fram:

Jóhanna Stígsdóttir (Jóka)
“Hún hefur sinnt uppeldi hvers einasta fótboltamanns sem hefur spilað í Sindratreyjunni með einhverjum hætti og hefur alltaf hagsmuni og velferð félagsins að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Hana þekkja allir sem hér hafa stundað íþróttir, sama hversu skamman tíma það hefur verið. Ég get ekki ímyndað mér neina manneskju sem er með Sindrahjartað á betri stað en Jóka!”

Gunnar Ingi Valgeirsson
“Framlag Gunnars Inga til knattspyrnudeildar, bæði sem leikjahæsta leikmanns meistaraflokks karla (og í deildarkeppni á Íslandi) og stjórnarmanns er óumdeilt. Hann hefur verið í stjórn Knattspyrnudeildar Sindra samfleytt frá árinu 1991 og hefur séð um ótal sérverkefni fyrir deildina svo sem Humarhátíð og fleira. Starf hans fyrir deildina hefur verið óeigingjarnt og hann hefur verið mjög öflugur í störfum sínum fyrir hana og aldrei látið sitt eftir liggja sama hversu stór eða smá verkefnin eru.”

Einnig voru Silfurmerki Sindra afhent, sem eru fyrir fyrsta landsleik/keppni og vel unnin stjórnarstörf. Að þessu sinni hlutu eftirtaldir Silfurmerki Sindra.

Ingibjörg Valgeirsdóttir fyrir að hafa leikið landsleiki á meðan hún var í Sindra.

Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir fyrir að hafa leikið landsleiki á meðan hún var í Sindra.

Kristján Guðnason vegna formennsku í stjórn Knattspyrnudeildar Sindra til fjölda ára.

Stjórn Sindra óskar öllum ofangreindum til hamingju með viðurkenninguna.