Golfsumarið 2023

0
429

Það má segja að golfsumarið sé að fullu byrjað hjá okkur. Það hófst formlega mánaðarmótin apríl- maí þegar opnað var inn á flatirnar og fyrsta mótið var haldið þann 1. maí. 10. maí hófst svo Glacier jorney mótaröðin og í lok maí hófst Holukeppni GHH 2023. Auk þessara móta sem hér eru talin eru mörg önnur sem og hið árlega Meistaramót GHH. Hér á Höfn verða einnig haldin Íslandsmót golfklúbba í 5. flokki karla og 50+ kvenna í 2. deild. Að slík mót séu haldin hér segir heilmikið til um það hvernig völlurinn okkar er. Frá því á afmælisárinu 2021 hafa staðið yfir framkvæmdir við golfskálann. Það var kominn tími á viðhald eins og gluggaskipti og þakskipti auk þess sem búið er að skipta um stóran hluta af klæðningunni utan á húsinu. Í leiðinni var ákveðið að uppfæra og breyta innan húss, gera veitingaaðstöðuna aðgengilegri og jafnframt að gera mögulegt að fá rekstraraðila í húsið. Nú í vetur hefur síðan verið unnið að lagfæringum á hinum hluta hússins, salerni endurnýjuð, ný skrifstofa og skáparnir sem hafa verið leigðir út sem geymsla undir golfsett hafa fengið nýtt aðsetur í húsi við hlið skálans. Í salnum sem skáparnir voru í er gert ráð fyrir að koma upp golfhermi. Til þess að slíkar framkvæmdir séu mögulegar fyrir lítinn klúbb eins og okkar þá er sjálfboðavinna það sem fleytir öllu áfram og það eru ekki ófá handtökin sem liggja þarna að baki. Nú í vikunni hefst fyrra af tveimur golfnámskeiðum fyrir börn sem Halldór Steinar Kristjánsson og Sindri Ragnarsson munu sjá um. Fyrir liðna helgi kom hingað golfkennarinn Margeir Vilhjálmsson og bauð upp á tíma fyrir fólk auk þess sem golfklúbburinn bauð upp á tíma hjá honum fyrir unglinga og nýliða. Margeir mun koma a.m.k þrisvar í viðbót í sumar. Við mælum eindregið með því að þeir sem hafa áhuga á að byrja í golfi mæti í tíma fyrir nýliða þegar það er GOLFSUMARIÐ 2023 auglýst hvort heldur það er hjá Margeiri eða félagsmönnum innan klúbbsins. Við viljum gjarna hvetja unglinga/ ungmenni til að koma og kynna sér golfíþróttina og ef áhugi verður fyrir hendi verður aftur boðið upp á tíma fyrir unglinga/ ungmenni hjá Margeiri. Á þriðjudögum er kvennagolf, stundum skipulagt og stundum ekki. En þá hittast konur í klúbbnum spila einn hring og borða oft saman á eftir. Þetta er afar skemmtilegur félagsskapur eins og nærri má geta og alltaf pláss fyrir fleiri . Þess má geta að margar konur sem spila í dag stigu sín fyrstu skref í gofinu með því að mæta í kvennagolf þar á meðal undirrituð sem fékk afar góðar móttökur þar.. 18. júní verður golfdagur á vegum GSÍ en þá koma PGA golfkennaranemar og eru með opinn tíma fyrir gesti og gangandi og hvetjum við alla áhugasama til að mæta og taka þátt. Kristín Jónsdóttir hefur tekið við rekstri golfskálans og rekur hann undir merkinu Gallerí Golf. Við bjóðum Kristínu velkomna og hlökkum til að gæða okkur á því sem hún hefur upp á að bjóða í sumar. Þess má geta að veitingasalan er opin öllum.

Halldóra Katrín Guðmundsdóttir