Góð mæting á aðalfund FeH

0
1085

Félag eldri Hornfirðinga hélt aðalfund sinn sl. laugardag og var ágæt mæting á fundinum. Auk venjulegra aðalfundastarfa var talsverð umræða um væntanlega viðbyggingu við Skjólgarð. Lagði stjórnin fram ályktun vegna fyrirhugaðrar viðbyggingarinnar þar sem skorað er á bæjaryfirvöld og heilbrigðisráðherra að sem allrar fyrst verði hafist handa við hönnun og framkvæmdir við þetta brýna hagsmunamál eldri borgara og allra íbúa sveitarfélagsins. Þrjú ár eru nú liðin frá því að þáverandi heilbrigðisráðherra kom í heimsókn og enn eru framkvæmdir ekki hafnar. Greinilegt er að klukkan tifar okkur í óhag. Ályktunin var samþykkt einróma og verður afhent viðkomandi.
Þá var lögð fram tillaga um að Félaga eldri Hornfirðinga fengi þau framboð sem bjóða fram í næstu sveitarstjórnarkosningum til almenns fundar til að svara spurningum um hvað varðar viðbyggingamál við Skjólgarð og eins varðandi byggingu smærri íbúða fyrir eldri borgara og hvernig framboðunum finnst að sveitarfélaginu beri að haga þjónustu við eldra fólk, þ.m.t.heimaþjónustu. Var þessi tillaga samþykkt einróma. Ljóst er að eldra fólki finnst þessi mál skipta sig miklu.
Í stjórn FeH sitja: Haukur H. Þorvaldsson formaður, Sigurður Ö. Hannesson, Lucía Óskarsdóttir, Örn Arnarson, Heiður Vilhjálmsdóttir, Katrín Jónsdóttir og Ásta Á. Halldórsdóttir. Aðsetur félagsins er í EKRUNNI við Víkurbraut. Nýir félagar eru velkomnir. Einnig er hægt að gerast styrktarfélagar.