Gjöf til allra kvenna á Íslandi

0
689

Kvenfélagasamband Íslands var stofnað 1. febrúar 1930 og fagnar því 90 árum á þessu ári.
Í tilefni 90 ára afmælisins munu kvenfélög um land allt standa fyrir söfnun.
Kvenfélagskonur safna fyrir tækjum og hugbúnaði honum tengdum, sem kemur til með að gagnast konum um landið allt. Um er að ræða mónitora og ómtæki, nýja eða uppfærða eftir því sem við á og rafrænar tengingar á milli landsbyggðar og Kvennadeildar Landspítalans.
Þau munu nýtast öllum konum á Íslandi, hvort sem er við meðgöngu og fæðingu, eða skoðana vegna kvensjúkdóma.
Tækin sem safnað verður fyrir geta aukið öryggi í greiningum og í mörgum tilfellum komið í veg fyrir að senda þurfi konur á milli landshluta vegna ýmissa óvissuþátta.
Þetta er mikilvægt mál fyrir allar konur en ekki þó síst fyrir konur á landsbyggðinni.
Kvenfélagið Vaka er aðili að Kvenfélagasambandi Íslands, og fagnar raunar einnig tímamótum á þessu ári, 75 ár eru frá stofnun þess. Starf félagsins er gott og blómlegt. Hafa félagskonur haldið uppi öflugu starfi og þannig getað styrkt bæði börn og fullorðna sem á þurfa að halda. Einnig hefur Hjúkrunarheimilið notið velvildar félagsins um áraraðir og svo mætti lengi telja.
Kvenfélagið Vaka hefur styrkt þessa tækjasöfnun myndarlega um krónur 500.000 og vonast til að einstaklingar og fyrirtæki á Hornafirði sýni þessu góða verkefni stuðning. Margt smátt gerir eitt stórt.

Reikningur söfnunarinnar er :
513-26- 200000  kt: 710169-6759

Með fyrirfram þakklæti
Kvenfélagið Vaka