Gísli Ólafur Ægisson er 10 ára gamall, sonur Hafdísar Hauksdóttur og Ægis Olgeirssonar.
Hann býr á Höfn og hefur búið hér síðan í 2. bekk og finnst það bara alveg notalegt að búa hér.
Gísli æfir sund og segir það pínu skemmtilegt. Við spurðum Gísla hvert draumastarfið hans væri og sagðist hann ekki alveg vera viss, en það væri allavega ekki kokkur. Ef Gísli hefði vald til að breyta einhverju í Hornafirði sagðist hann kannski vilja stærri og lengri sundlaug.
Uppáhalds jólasveinninn hans Gísla er Stekkjastaur og finnst honum jólin snúast um að vera saman og hafa gaman. Hann virðist ekki vera stressaður um hvað hann fær í jólagjöf og þegar hann var spurður hvað hann vildi í jólagjöf ef hann gæti valið sér hvað sem er í heiminum sagðist hann ekki vita það en “kannski bara leiki”.
Uppáhalds jólamaturinn hans er hamborgarhryggur og á aðfangadag þykir honum þykir skemmtilegast að opna pakka og borða.
Við spurðum Gísla um uppáhalds jólahefðina hans og sagði hann okkur að þau færu oft í jólaleiki, pakkaleik og að hann hefði einu sinni fengið servíettur í pakkanum.
Hvít jól eru í uppáhaldi hjá Gísla og segir hann okkur að honum þyki bara mjög gaman á jólunum og að fara út í snjóinn.
Við óskum Gísla gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og þökkum honum spjallið.