Gefandi og ánægjuleg þátttaka

0
1283
Á ferðalagi í suður Tíról

Það skiptir hvert samfélag máli að geta uppfyllt væntingar og kröfur fólks. Það er ekki auðvelt mál þegar möguleikar og fjölbreytni mannlífsins er alltaf að breytast og kröfur að aukast.
Samt viljum við hafa ákveðna hluti í föstum skorðum eða eiga möguleika á að geta gengið að þeim vísum.
Þetta á til dæmis oft við varðandi ýmsar athafnir í kirkjunni okkar. Margar dýrmætustu stundir og minningar í lífi okkar tengjast einmitt kirkjulegum athöfnum s.s. skírnum, fermingum og giftingum. Sömuleiðis finnst okkur mikilvægt að útfarir og minningarathafnir ástvina geti farið virðulega fram og ákveðinn myndugleiki sé kringum starf kirkjunnar. Til þess að svo megi vera þarf m.a. að vera viðeigandi tónlistarflutningur. Þegar við á er ætlast til að starfandi kór sé til staðar ef óskað er eftir þátttöku hans.

samkór

Samkór Hornafjarðar hefur leyst þau mál fyrir flestar sóknir í prestakallinu þegar á hefur þurft að halda ásamt organistanum Jörg Erich Sondermann.
Það getur verið krefjandi að syngja við ýmsar athafnir en þá er það um leið enn frekar gefandi að hafa tekið þátt í að þjónusta samborgarana og standast væntingar.
Það er ánægjulegt hvað kórastarf er almennt í héraðinu. Sam­kórinn hefur nokkra sérstöðu og aðrar „skyldur“ við samfélagið og þess vegna eru gerðar aðrar kröfur til hans.
Fólk eldist og góðir söngfélagar í kórnum hætta eins og gerist og gengur. Nú er kórinn byrjaður að æfa fyrir komandi tímabil. Ég hvet þá sem geta hugsað sér að ganga til liðs við kórinn að hafa samband við kórfélaga og prófa að mæta á æfingu, það er án allra skilyrða. Það er tilvalið fyrir hjón að eiga sameiginlegt áhugamál og syngja saman í kórnum.
Samkórinn er ekki bara kirkju­kór. Kórinn heldur ýmsa tónleika eins og sést á þessari upptalningu, hefur farið reglulega í utanlandsferðir og kemur stundum saman til að skemmta sér;

  • Æfingar á þriðjudögum
  • Kóramót á Kirkjubæjar­klaustri í lok október
  • Aðventutónleikar í desember
  • Vortónleikar í apríl 2019
  • Utanlandsferð á næsta ári
  • Ýmsar uppákomur og skemmtilegheit

Ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem eru tilbúnir að taka þátt í samfélagsverkefnum eins og Samkórnum sem sannarlega hefur skilað sínu og ég dáist reyndar að skyldurækni og samviskusemi kórfélaga.
Ég endurtek hvatningu mína til þeirra sem geta hugsað sér að koma til liðs við kórinn og vil nota tækifærið og þakka kórnum fyrir þátt hans í kirkjustarfinu og reyndar menningarlífi okkar almennt.

Albert Eymundsson formaður
Sóknarnefndar Hafnarsóknar