Á gamlársdag komu saman 34 galvaskir, litríkir hlauparar og kvöddu árið með góðum spretti um götur Hafnar. Hlaupahópur Hornarfjarðar og Umf Sindri sáu um viðburðinn og það verður að segjast að þeim tókst sérstaklega vel í skipulagningu á afar góðu vetrarveðri! Í boði var að hlaupa 3, 5 og 10 km (kílómetrarnir þrír reyndust svo vera nær fjórum þegar á hólminn var komið). Búningaþema var í hlaupinu og sjá mátti m.a. trúð, jólasveina og virðulega konu í upphlut. Flugeldar, keyptir með stuðningi frá Gröfuþjónustu Olgeirs, voru veitt í verðlaun fyrir flottustu búningana. Þorbjörg Gunnarsdóttir fékk verðlaun en hún mætti í afar fallegum upphlut og hljóp með barnabörnin sín. Helga Valgerður Friðriksdóttir og fjölskylda fengu verðlaun fyrir gott samræmi í búningum og Jóhann Hilmar Haraldsson fékk svo aukavinning fyrir að mæta í smekklegum jólakjól. Fyrstu hlauparar (kk og kvk) í hverri vegalengd fengu konfekt í verðlaun frá Nettó. Í 3 km hlaupinu voru fyrst Hreiðar Bragi Valgeirsson og Helga Valgerður Friðriksdóttir, í 5 km hlaupinu Sveinn Rúnar Sveinsson og Guðrún Ása Jóhannsdóttir og í 10 km hlaupinu Stefán Viðar Sigtryggsson og Matthildur Ásmundardóttir.
Nánari úrslit má finna hér: facebook.com/hlaupahopurhornafjardar. Fimm veitingastaðir á Höfn; Pakkhúsið, Hafnarbúðin, Z-bistró, Íshúsið og Birki, gáfu síðan gjafabréf sem dregin voru út í upphafi hlaups. Skipuleggjendur vilja þakka stuðningsaðilum kærlega fyrir öll verðlaunin. Fimm km hlaupið var þriðja hlaupið af sex í vetrarhlaupaseríu Hlaupahóps Hornafjarðar og Umf Sindra. Næsta 5 km hlaup fer fram 27. janúar. Þátttakendur og sjálfboðaliðar í Gamlárshlaupi 2021 fá að lokum kærar þakkir fyrir góðan og skemmtilegan hlaupadag.