GALLERÍ GOLF OPNAÐ Á SILFURNESVELLI

0
358

Kristín Jónsdóttir hefur tekið við golfskálanum þar sem hún rekur kaffihúsið Gallerí Golf. Þau opnuðu formlega 1.maí með golfmóti sem var vel sótt og vel lukkað. Kristín segist hafa hugsað lengi um að opna kaffihús og lét loksins slag standa. Hún hefur langa og mikla reynslu af því að starfa í matargerð en aldrei verið með rekstur sjálf. Kristín segist spennt fyrir sumrinu sem fer vel að stað. Gallerí Golf er staður sem fólk getur komið saman og notið útsýnisins yfir góðum kaffibolla og léttum veitingum. „Þú þarft ekki að eiga golfkylfu til þess að koma, hingað eru allir velkomnir“ segir Kristín. Í boði eru léttar veitingar sem gott er að grípa með sér á milli golfhringa, svo gæti bæst í hann súpur og pasta þegar líður á sumarið. Kristín segir móttökurnar hafa verið mjög góðar og þegar hafa margir kíkt í heimsókn. Kristín tekur einnig við hópabókunum fyrir minni hópa í léttar veitingar, fyrir hin ýmsu tilefni, og segir hún bókanir nú þegar farnar af stað. Sunnudaginn 28.maí ætlar Kristín að vera með opið hús og bjóða gestum og gangandi upp á kleinur og kaffi í boði hússins, hún hvetur alla til þess að heilsa upp á hana og sjá hvað Gallerí Golf hefur upp á að bjóða. Gallerí Golf verður opið alla daga frá 10:00-20:00 í sumar þar sem Kristín tekur vel á móti öllum sem eiga leið hjá.

Frekari upplýsingar má finna á facebook og instagram síðu: https://www.facebook.com/gallerigolf https://www.instagram.com/gallerigolf/

Eystrahorn þakkar Kristínu fyrir spjallið og óskar henni góðs gengis með Gallerí Golf