Fyrir jól-Fyrir jól

0
258
Mynd frá vísindadögum í FAS

Fyrst vil ég gjarnan orða þakklæti mitt fyrir að fá að gera það sem ég er að gera, að vera skólameistari í FAS og kynnast Höfn frá þeim sjónarhóli. Við hjónin, undirrituð og Tim Junge, fluttum hingað haustið 2018 og ætluðum að vera í hér í eitt ár, en Höfn heillaði og við erum hér enn. Tilgangurinn var að prufa að búa á landsbyggðinni. Tim er hollenskur og við höfðum búið í Den Haag og í Reykjavík, bæði mikil borgarbörn.
Bakgrunnur minn kemur úr listum og handverki en þróast á einhverjum tíma út í kennslu í mínum fögum, kjólasaum og myndlist, fyrst í grunnskóla og síðan í framhaldsskóla. Áhuginn var það mikill á kennslunni að ég kláraði framhaldsnám í kennslufræði. Listamaðurinn Magnús Pálsson hélt því fram að „kennsla væri geggjaðasta listgreinin“ en Magnús var einn af mínum allra bestu kennurunum í myndlistarnámi. Háskólanám í listum gerir miklar kröfur og kennir meðal annars hugmyndavinnu og skapandi hugsun, einnig hvernig þeim hugsunum er veittur farvegur og þær gerðar að veruleika (kannski listaverki). Þessi lærdómur hefur komið sér vel, í lífinu, í vinnu og áframhaldandi námi. Sem kennari og listamaður hef ég trú á því að sköpunarkrafturinn búi í okkur öllum, en við þurfum, eins og listamaðurinn, að tengjast honum og þar kemur nám til sögunnar. Grunnforsenda alls er sköpun, síðan ígrundun og að því loknu aðgerðir og afurð (sem getur verið listaverk). Í samfélaginu eins og það birtist í dag þá er mikið um mötun og auðveldar lausnir. Lausnir sem krefjast ekki frumkvæðis. Í öllu námi þá er það ekki alveg málið, það þarf að sýna fram á ákveðna hæfni og framkvæma ákveðna vinnu til að ná ásættanlegum árangri. Við sem sinnum kennslu erum vakin og sofin að kveikja þennan neista sem við vonum alltaf að verði mikið bál, neistann til náms og sköpunar. Það er ótrúlegt en þó get ég fullyrt að langflestir kennarar sem ég hef átt samleið með brenna fyrir sínu starfi og hér segja kannski sumir og brenna líka upp. En það er önnur saga.
Í jákvæðri menntun er mikið talað um sjálfsákvörðunarkenningar og hvernig hægt er að fá nemendur til þess að taka þátt og finnast þeir vera gerendur í eigin lífi. Við getum líka sagt að viðfangsefnið sé að virkja þeirra eigin sköpunarkraft, gefa þeim hlutdeild og ákvörðunarrétt í eigin námi. Það er stefnan í FAS að framhaldsskólinn nýtist nemendum í því námi sem þeir velja sér og auki lífsgæði þeirra. Að námið leiði til sjálfstæðis í fjölbreytileika og leysi úr læðingi þann kraft sem leynist í nemendanum.
Mikilvægi þess fyrir samfélagið að það sé framhaldsskóli hér á Höfn er gífurlegur, en það er ekki sjálfgefið. Höfn er langt frá næsta fjölbýliskjarna og/eða framhaldsskóla. Það hlýtur að vera frábær kostur að þurfa ekki að senda börnin sín um langan veg, á ungum aldri til þess að stunda framhaldsskóla, sem er dýr og óhentugur kostur að mörgu leyti. Það er þó ekki svo að við sem vinnum í framhaldsskólanum sjáum ekki kosti þess að takast á við ný og krefjandi verkefni og þroskast af áskoruninni sem felst í því að fara úr foreldrahúsum. Heldur frekar, ef talað er hreint út, ef þeir sem búa hér kjósa ekki að sækja skólann okkar þá verður kannski í framtíðinni ekki sjálfsagt að þessi kostur sé fyrir hendi. Ég hef heyrt frá reyndum mönnum, að einu sinni hafi það verið talið óumflýjanlegt að taka fyrsta framhaldsskóla árið sitt í heimabyggð. Ég legg þetta hér fram til umhugsunar.
Aðeins um það sem við erum að gera hér í skólanum. Það hefur farið fram mikið starf til þess að gera skólann að því sem hann er í dag. Í mótun er verknám í samstarfi við aðra skóla og fyrirtæki á svæðinu. Listnámið okkar er alltaf að þroskast og batna m.a. með auknu samstarfi við tónlistarskólann á Höfn og Svavarssafn. Enn á ný verður FAS í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar um sviðsverk sem verður frumsýnt í vor. Eins og undanfarin ár er skólinn þátttakandi í erlendum samstarfsverkefnum og norrænum nemendaskiptaverkefnum. Eitt stærsta þróunarverkefnið innan skólans hefur verið að móta fjallamennskunámið, en sú vinna er á lokaspretti og bíðum við spennt eftir framvindunni sem ætti að vera ljós á vormánuðum. Eins erum við í óða önn að innrétta núvitundarherbergi og fyrir þá sem ekki vita er kennd núvitund og jóga í FAS, saumar verða líka kenndir í Vöruhúsinu en þar er einnig staðsett myndver, ljósmyndastúdíó og FabLab.
Öll menntun er mikilvæg og unga fólkið í öllum sínum fjölbreytileika er okkur dýrmætt. Þau þurfa jú að hugsa um okkur seinna meir og taka við þráðum hugsana og framkvæmda sem skapa framtíðina.
Að lokum vil ég koma á framfæri þakklæti til þeirra sem höfðu vit og kraft til að stofna þennan skóla, halda honum gangandi og í sífelldri þróun, þróun sem heldur áfram. Menntun er leiðin að farsælli framtíð.
Ég óska öllum sem þetta lesa, gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Kær kveðja,
Lind D. Völundardóttir