Fyrir 30 árum: „Framhaldsskóli settur“

0
3398
Skólameistari Zophonías Torfason setur Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu í fyrsta sinn. Athöfnin fór fram í mötuneyti Nesjaskóla.

Birtist í 33. tölublaði Eystrahorns, fimmtudaginn 17. september 1987

Mánudagurinn 14. september var merkisdagur í sögu Suðausturhornsins. Þá var settur í fyrsta skipti Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu. Eins og við var að búast fór skólasetningin fram með óhefðbundnum hætti, en minnti allnokkuð á setningu annarra skóla af svipuðu tæi. Zophonías Torfason, skólameistari, hélt ræðu þar sem hann gerði grein fyrir tilhögum vetrarstarfsins og gaf nemendum ýmis heilræði, svona rétt eins og vera ber. Nemendur fengu í hendur stundaskrár og bókalista og fyrirmæli um það að mæta í skólann árla næsta morgun.

Þarna voru mættir velflestir nemendur og kennarar, en foreldra mátti telja á fingrum annarrar handar. Það má raunar telja merkilegt hvað foreldrar fælast þennan skóla. Sömu sögu mátti segja við skólaslit framhaldsdeilarinnar í vor, þá fámenntu foreldrar. Annars er áhugi fólks hér um slóðir á skólanum vaxandi, það sýna góðar heimtur nýnema.

Framhaldsskóli Austur Skaftafellssýslu státar af eftirtöldum kennurum: Zophoníasi Torfasyni, Helgu Pálsdóttur, Leif Jensen, Guðjóni Eyjólfssyni, Guðbrandi Jóhannssyni, Halldóri Tjörva, Sturlaugi Þorsteinssyni, Hreini Eiríkssyni og Sæmundi Gunnarssyni.

Nemendur eru 52, þar af 7 á heimavist.

T.