Fyrir 25 árum: „Leitað að jarðhita“

0
3678

Birtist í 4. tölublaði Eystrahorns, fimmtudaginn 30. janúar 1992

mynd1Jarðhitaleit er fyrirhuguð hér í sýslunni á næstunni. Hér er um forrannsóknir að ræða sem Sýslunefnd Austur-Skaftafellssýslu stendur að og eiga þær sér all langan aðdraganda. Boraðar verða 25-28 holur, víðs vegar um sýsluna, hver um sig 50-60 metra djúp og þriggja til fjögurra tommu víð. Á jarðfræðingamáli nefnast slíkar holur hitastigulsholur.
Hvort áframhald verður á athugunum ræðst af niðurstöðum hitastigulsrannsóknanna.
Jarðhitadeild Orkustofnunnar hefur hingað til álitið litlar líkur á því að finna nýtanlegan jarðhita í sýslunni en vitað er um jarðhita á þremur stöðum, og gefur það von til hins gagnstæða. Þessir staðir eru í Jökulfelli, vestan við mynni Morsárdals, í Vatnsdal, austan við Heinabergsjökul og í Vandræðatungum, vestan í Viðborðsdal. Auk þess hefur mælst nokkuð hár hitastigull undir Dalsfjalli í Lóni.
Boranir eru fyrirhugaðar á eftirtöldum stöðum:
Skaftafell/Svínafell, Kvísker, Reynivellir/Hali, Kálfafell/Jaðar, Borgarhöfn/Hestgerði, Uppsalir/Smyrlabjörg, Skálafell, Flatey, Borg, Brunnhóll, Rauðaberg/Hlíðaberg, Hoffell/Miðfell, Setberg/Krossbær, Lindarbakki, Bjarnanes, Seljavellir/Ártún, Hjarðarnes, Hafnarnes, Höfn-Ósland, Laxárdalur, Stafafell/Brekka.
Á svæðinu Hof/Fagurhólsmýri/Hnappavellir er grágrýti með köldu grunnvatni ofan á tertíera berggrunninum. Til að fá upplýsingar um hitastigul í berggrunni svæðisins gæti þurft að bora nokkur hundruð djúpar holur en það er of kostnaðarsamt til að rúmast innan ramma þessarar könnunar.
Gert er ráð fyrir að það taki einn dag að meðaltali að bora hverja holu, með flutning og töfum. Áætlaður kostnaður við leitina er 3.090 þúsund og er fjárveiting fengin frá ríkinu að stórum hluta.

GG