Fuglinn sem verpti ekki eggjum

0
1107
Helsingi á flugi. Ljósmynd: Paul Ellis.

Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin er ein þeirra bóka sem út komu nú fyrir jólin. Höfundur er Sigurður Ægisson, guðfræðingur og þjóðfræðingur, en útgefandi eru Bókaútgáfan Hólar ehf.
Hér er gripið niður í kaflann um einn af einkennisfuglum Skaftafellssýslna, helsingjann. Sá hefur líka verið nefndur bíldgæs, gagl, grænlandsgæs, helsingjagæs, helsingur, hrúðurkarlafugl, kinnótt gæs, krankfugl, prompa, sjófarhrafli og trégæs.

Ísland

Helsingjar verptu áður fyrr á Austur-Grænlandi, Svalbarða og nyrst í Rússlandi, en er nú líka að finna í Norður-Evrópu. Grænlensku fuglarnir eiga viðkomu á Íslandi vor og haust, á leið sinni til og frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum, aðallega í Skotlandi. Þeir halda einkum til í Skagafirði og Húnavatnssýslum á vorin en í Skaftafellssýslum á haustin. Á Íslandi hafa fuglarnir verpt nokkuð samfellt frá árinu 1964, fyrst nokkur pör í Breiðafirði, en einnig í Austur-Skaftafellssýslu frá því laust fyrir 1990 og í vestursýslunni frá 1999. Þá eru auk þess smærri vörp hér og þar á landinu.

Helsingjar verða til, samkvæmt þrjóðtrú fyrri alda. Vatnslitamynd eftir bandaríska háskólakennarann og listakonuna Jennifer Landin.

En þá að hinu.
Reyndar er nauðsynlegt að leyfa erlendu þjóðtrúnni að komast strax að, enda er þetta allt samtvinnað. Menn héldu nefnilega á öldum áður, að helsinginn verpti ekki eins og aðrir fuglar, hvað þá lægi á eggjum, enda kom hann fullskapaður á vetrarstöðvarnar og aldrei fundust hreiðrin þar á vorin. Þetta var mikil ráðgáta.
Loks þóttist Giraldus Cambrensis hinn velski, annálaskrifari og háskólakennari í París og síðar biskup, hafa komist að hinu sanna, þegar örlítinn helsingja, á fósturstigi, bar fyrir augu hans á Írlandi. Þessi kynduga skepna var þá ekki eiginlegur fugl eftir allt, það gaf augaleið, enda átti hún uppruna sinn — og nærðist í fyrstu — í hafinu.
Þetta var mikil uppgötvun og átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á matarvenjur kaþólskra manna næstu aldirnar á föstutímanum, þegar kjötát var bannað.
Næsta stig þessarar mýtu er, að ævafornar sagnir, allt frá Indlandi og vestur um, fóru að blandast inn í þetta og nú tóku helsingjarnir — og nokkrar aðrar tegundir — að vaxa á trjám á sjávarbökkum. Talið er, að upphafið megi jafnvel rekja til Þrakíu, um 2.000 f. Kr., ríkis, sem í fornöld náði yfir mestan hluta þess sem nú er Búlgaría, norðausturhluti
Grikklands og partur af Tyrklandi, auk austurhluta bæði núverandi Serbíu og Makedóníu.
Agnar Ingólfsson og Finnur Guðmundsson rituðu grein í Náttúrufræðinginn árið 1968 og höfðu meðal annars þetta að segja:
Á rekavið, sem skolar á land á Íslandi, sitja stundum einkennileg dýr. Oftast eru þau mörg saman og mynda því klasa á viðnum. Þessi dýr sitja á vöðvalegg, sem er festur við viðinn, en dýrið sjálft myndar eins konar „höfuð“ (capitulum) á leggnum og er það umlukt 5 bláleitum kalkskeljum. Þetta eru hin svonefndu helsingjanef, en eina tegund þeirra, sem vitað er til að hafi fundizt á íslenskum rekavið, þ.e.a.s. við, sem rekið hefur á íslenzkar fjörur, heitir á vísindamáli Lepas anatifera.
Helsingjanef eru krabbadýr, þótt þau minni raunar lítið á krabba við fyrstu sýn. Þau teljast til þess ættbálks krabbadýra, sem hlotið hefur nafnið Cirripedia, en á íslenzku hafa slík dýr verið nefnd skelskúfar. Svo virðist sem Benedikt Gröndal sé höfundur íslenzka nafnsins. Að minnsta kosti virðist það hvergi koma fyrir á prenti fyrr en í 5. hefti af Gefn, en það er tímarit, sem Gröndal gaf út meðan hann dvaldist í Kaupmannahöfn. Fimmta og síðasta hefti þessa tímarits, sem kom út árið 1874, fjallar einvörðungu um náttúru Íslands. Þar er allmikið af nýyrðum, sem Gröndal hefur smíðað, og hafa mörg þeirra festst í málinu.
Helsingjanef er hins vegar gamalt alþýðunafn, sem er arfur frá þeim tíma, þegar menn töldu, að helsingjanefin væru aðeins tiltekið þróunarstig helsingja og/eða margæsa líkt og egg hjá öðrum fuglum. Þessi trú var ríkjandi frá því á 12. öld og fram á öndverða 18. öld. Að vísu vefengdu stöku fræðimenn þessa kenningu, og var Albertus Magnus (ca. 1200–1280) einn þeirra. En hún reyndist samt ótrúlega lífseig. Til dæmis um það má nefna, að árið 1678 birtist ritgerð í „The Philosophical Transactions“ í London þar sem höfundurinn, Robert Moray, heldur enn fast við þessa kenningu og lýsir því, hvernig helsingjanefin breytist í hinar umræddu fuglategundir. Og árið 1689 birtist meira að segja enn í fræðiriti mynd af tré, sem hinar umræddu gæsir áttu að hafa vaxið á.
Það er því ekki tiltökumál, þótt í elztu ritum um náttúru Íslands sé vikið að þessu efni. Meðal annars segir Oddur biskup Einarsson í Íslandslýsingu sinni frá 1589, að um fæðingu helsingja segi „landar vorir hér um bil hið sama sem Petrus Pomponalius skrifaði forðum um brenta eða bernicla“. Og Gísli biskup Oddsson kemst þannig að orði um þetta efni í Íslandslýsingu sinni frá 1638: ,,En svo skal ég ekki fara út fyrir efnið og þá kem ég að öðrum líkum fuglum af sama kyni, en lítið eitt minni, sem halda sig mest við sjávarstrendur og eru því nefndir margæsir. Þeim eru líkastir helsingjar, sem menn halda að hafi tvöfalda æxlun, fæðist annað kynið af trjáviði nokkrum (sjá Gyðingasögu Jósephusar), en hitt komi fram við egg. Hefur eftir því verið tekið hér á landi, að hið síðarnefnda hendi sjaldan hér, og fullyrða menn því einum munni, að allir helsingjar vorir séu karlfuglar.“ Meðal almennings á Íslandi mun lengi hafa eimt eftir af þessari trú, því að í dagbók sinni frá 1797 víkur Sveinn Pálsson að þessu efni og gefur í skyn, að hin gamla trú um „Lepades anatiferas“ sé ekki með öllu úr sögunni.
Þessi lífseiga trú um hinn dularfulla uppruna helsingja og margæsa hefur eflaust átt rætur sínar að rekja til þess, að lengst af þekktu menn ekki varpheimkynni þessara tegunda, en þau eru í nyrztu Íshafslöndum. Hins vegar voru báðar tegundirnar algengar við strendur Vestur-Evrópu vetur, vor og haust.

Annars var það aldrei ætlunin að rekja hér til neinnar hlítar hinar fjölmörgu heimildir um þetta efni, enda eru þær miklu fremur menningarsögulegs en náttúrufræðilegs eðlis. En geta má þess, að auk íslenzka nafnsins helsingjanef bera nafngiftir á ýmsum málum enn merki þessarar fornu trúar. Á ensku heita t. d. helsingjanef goose barnacles og á þýsku Entenmuscheln. Vísindaheiti margæsarinnar er Branta bernicla og á ensku nefnist helsinginn barnacle-goose.
Víkur nú sögunni til Jóns Guðmundssonar hins lærða á 17. öld, en hann ritar eftirfarandi:
Þad smæsta fuglakyn kalla menn sjófarhrafla, varla þridie partur úr selning. Þar af kalla menn hrafl sniós, þegar jörd er sumstadar ber; hann er fleckóttur með hvijtt og svart.
Erfitt er að sjá á þessum orðum hvort Jón er með á nótunum, en samt er eins og hann viti eitthvað af umræðunni. Í sama riti minnist hann bara á gæs og álft og er ekki með neina frekari sundurliðun.
Þorlákur Markússon kannast í Íslandslýsingu sinni frá um 1730 við söguna af uppruna helsingjanna og Snorri Björnsson á Húsafelli líka, 1792, og segir um fuglinn:
[U]m hann og hans nätturu hafa menn margt dicktad sem einga vissu hefur, þessi fugl kemur hingad ä land a vorinn þä hann flygur til nordursins og aptur ä haust med ungumm synumm þä hann flýgur i sudrid, ä vorinn er hann hier veiddur med Eggiahylke edur kierfi; þvi vex hann ecki ür triänumm sem sagt hefur verid. Enn þau helsinganef (sokóllud) sem siäst ütkoma ür þeim feitu siöhroktu triám; eru ei annad enn sä triesmiügandi Madkur; sem i þeim verdur ad þvilykri skielpøddu; lýkri hrüdur kalli; og vex älldrei meira; enn hün siest ä trianumm.
Tryggvi Gunnarsson, þá bankastjóri Landsbankans, ritaði svo árið 1901 í Dýravininn:
Þegar ég var unglingur í Þingeyjarsýslu, heyrði ég að menn voru að þrátta um það, hvort helsinginn væri steggi grágæsarinnar. Sumir þeirra sögðu að það gæti ekki verið, því að aldrei sæist helsingi hjá gæs, þegar hún lægi á eggjum. En hinir voru miklu fleiri, sem héldu þeirri skoðun fram, að allir helsingjar væru steggjar, því að aldrei fyndust helsingjahreiður hér á landi …