Fréttir af sunddeildinni

0
1192

Við í sunddeildinni höfum verið að brasa ýmislegt undanfarið þrátt fyrir fámenni í deildinni.
Við komumst seint af stað í haust vegna þjálfaraskorts enn síðan var heppnin með okkur og við fegnum tvo Filipa sem starfa á Humarhöfninni en þeir skipta með sér þjálfun í vaktafríum frá þjónustustörfum. Þeir eiga báðir bakgrunn í þjálfun og æfingum í sundi úr sínu heimalandi. Þeim til aðstoðar er svo Íris Mist Björnsdóttir og er frábært að hafa fengið hana til liðs við okkur. Hélt hún einnig utanum æfingar elsta hópsins, sem hafa náð þeim aldri að mega fara ein í sund þegar Filiparnir fóru til síns heimlands í jólafrí. Eldri krakkarnir hafa einnig verið duglegir að æfa saman þjálfaralaus og eiga þau hrós skilið fyrir það.
Við byrjuðum æfingar að nýju eftir jólafrí 10. janúar og vikan þar á eftir eða 14. – 18. janúar var opin þeim sem vildu koma og prófa. Æfingarbúðir verða haldnar núna helgina 22. til 24. febrúar í samvinnu við Inga Þór sem er sundfólki Hornafjarðar vel kunnugur. Við eigum einnig von á iðkendum af Austfjörðum í æfingabúðirnar. Ingi Þór ætlar einnig að halda úti nokkrum æfingum þessa helgi fyrir Garpa sem vilja skerpa á skriðsundstökunum.
Að venju förum við á Djúpavog og Eskifjörð en UÍA er að gefa eftir með sundmót á austurlandi til dæmis var ekki boðið uppá sund á Sumarhátíðinni eins og verið hefur í áratugi. Haldið var þó Bikarmót UÍA á Djúpavogi samkvæmt venju og bar það upp á sömu helgi og eldri hópurinn var að keppa í Laugardalslaug. Yngri börnin fóru því á sitt fyrsta sundmót á Djúpavog þjálfaralaus og stóðu sig með mikilli prýði undir dyggri stjórn formanns deildarinnar og er greinilegt að þar eru sundmenn framtíðarinnar á ferðinni og margir góðir sundtímar litu dagsins ljós.
20180513_094916Í dag erum við með þrjá eldri iðkendur og ef hér væri til afrekshópur ættu þau öll erindi í hann. Á síðasta sundári stimpluðu þau sig t.d. inná AMÍ með því að synda undir lámarkstíma fyrir 12 ára. Í júní 2018 héldu þau síðan til Akureyrar á sitt fyrsta AMÍ mót (Aldursflokkameistaramót Íslands). Síðasta haust fóru þau á mót í Reykjanesbæ og Laugardalslaug og gerðu sér lítið fyrir og syntu beint inní 13 ára lágmarkið þá 12 ára gömul fyrir AMÍ 2019. Núna um síðustu áramót færðust þau uppí 13 -14 ára flokkinn og er gleðilegt að geta byrjað árið með að eiga tryggðan þátttökurétt og markmið að geta bætt sig fyrir mótið í sumar. En AMÍ 2019 verður haldið í Reykjanesbæ í júní. Einhverjar mótsferðir eiga þau vonandi eftir að fara fyrir þann tíma og er það von undirritaðrar að Ingi Þór eigi eftir að leiðbeina okkur með það að loknum æfingarbúðum.
Að lokum langar mig að þakka öllum þeim sem hafa styrkt okkar litlu deild með flöskum og góðum móttökum þegar við höfum verið á ferðinni, en dósasöfnunin er ein okkar helsta fjáröflun og ástæða þess að hægt er að halda úti sunddeild hér þar sem þjálfaralaun og iðkendagjöld geta aldrei verið á pari með svona fáa iðkendur. Enda hefur hún að skipa mestu nagla Sindra þegar kemur að því að æfa úti allt árið sama hvernig viðrar.

Fyrir hönd Sunddeildar Sindra Gunnhildur Imsland.