Nú er sumarið vonandi alveg að detta inn, enda ekki seinna vænna þar sem knattspyrnuvertíðin er að komast á fullt skrið. Því miður þá búum við ekki svo vel að vera með nothæfan keppnisvöll hér heima á vorin þannig að við höfum verið að fara með heimaleiki okkar annað og alla leiki í Lengjubikar höfum við keppt að heiman. Þetta er að sjálfsögðu mjög kostnaðarsamt fyrir deildina sem og iðkendur en með góðum stuðningi styrktaraðila okkar þá hefur þetta gengið upp og verður svo vonandi áfram. Starfsemi knattspyrnudeildar er ansi viðamikil. Við erum með meistaraflokk karla og meistaraflokk kvenna ásamt því að við höldum úti öflugu starfi yngri flokka bæði í karla og kvenna flokkum frá 7. fl og upp í 3. fl auk þess sem við tökum þátt í samstarfi við við Knattspyrnufélag Austfjarða og Neista Djúpavogi um 2. flokk karla en sú samsteypa nefnist KFA/ Sindri/Neisti. Hluti af rekstri okkar byggist á innkomu af leikjum og þar koma stuðningsmannakortin sterk inn. Þau verða send sem valgreiðsla í heimabankann á næstu dögum. Þetta árið verðum við með silfurkort sem mun kosta 15.000.- og innifalið í því er frítt kaffi á vellinum, miði á alla heimaleiki hjá mfl kvenna, mfl karla og 2. fl karla. Einnig verðum við með gullkort á 25.000.- en þau eru eins og silfurkortin nema að þau gilda fyrir tvo á völlinn. Við vonumst til þess að þið kæru stuðningsmenn takið vel á móti valgreiðslu fyrir silfurkort sem berst ykkur í heimabanka og látið okkur vita ef hún berst ykkur ekki eða ef þið viljið frekar gullkort – knattspyrna@umfsindri. is eða látið yfirrukkarann okkar hana Jóku vita þegar hún mætir með posann. Hún kemur þessu til skila. Hlökkum til að sjá ykkur á Jökulfellsvellinum í sumar og fyrirfram þakkir fyrir stuðninginn!
Áfram Sindri!