Fréttatilkynning- Hótel Höfn

0
483

Framtakssjóður í rekstri Alfa framtak ehf. hefur fest kaup á öllu hlutafé í Hótel Höfn af Jökli fjárfestingum ehf. Kaupin eru nú til umfjöllunar hjá samkeppniseftirlitinu. Ráðgert er að nýr eigandi taki við rekstrinum um mitt sumar. Jökull Fjárfestingar ehf, keyptu Hótel Höfn í apríl 2016 og hafa rekið síðan.
Að sögn Vignis Más Þormóðssonar, stjórnarformanns Jökuls fjárfestinga ehf. og framkvæmdastjóra Hótel Hafnar, hefur rekstrartíminn verið ánægjulegur. „Það hefur verið virkilega gaman að taka þátt í verkefninu og við kynnst mörgu góðu fólki á þessum tíma. Sérstaklega erum við þakklát fyrir frábært starfsfólk í gegnum árin og gott samstarf við samfélagið í heild sinni á Höfn. Covid-tímabilið var vissulega mjög krefjandi þar sem mikil óvissa ríkti á löngum köflum, en við sigldum samhent í gegnum það,“ segir Vignir.
Helga Steinunn Guðmundsdóttir stjórnarfomaður Hótel Hafnar segir miklar endurbætur á hótelinu hafa átt sér stað á síðustu árum og að í framkvæmdaferlinu hafi uppruni hótelsins ávallt verið hafður að leiðarljósi. „Hótel Höfn á sér merkilega sögu og var það byggt upp af mikilli framsýni og myndarbrag frumkvöðlanna. Hótelið var tekið í notkun að hluta 1. október 1966 og að fullu 17. júní ári síðar. Í dag er ástand fasteigna mjög gott og reksturinn einnig á góðum stað. Þannig að við skiljum stolt við, en með söknuði því þetta hefur verið skemmtilegur tími.