Framtíðar uppbygging á Jökulsárlóni –Eignarhald og rekstur lykilmannvirkja

0
155

Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu boðar til fundar um framtíðaruppbyggingu innviða við Jökulsárlón og möguleika á stofnun fasteignafélags í eigu Hornfirðinga ( Austur- Skaftfellinga ). Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 5. október n.k kl 17:00 í fundarsal Nýheima.

Á sumarmánuðum auglýstu stjórnvöld eftir aðilum til að taka þátt í markaðskönnun þar sem reyfaðar voru hugmyndir um hvernig standa skuli að uppbyggingu fasteigna og innviða við Jökulsárlón. Markaðskönnunin bar þess merki að málið væri á byrjunarstigi og óljóst hvaða leiðir stjórnvöld vilja fara þegar kemur að eignar- og rekstrarhaldi uppbyggingar innviða við Jökulsárlón.

Eftirfarandi fyrirtæki skiluðu inn upplýsingum tengdum markaðskönnuninni:

Actic Adventure hf
Gistiheimilið Hali ehf
Íslandshótel
Reitir fasteignafélag
Bláa Lónið
Icelagoon ehf
Jökulsárlón Ferðaþjónusta ehf
Reykjavík Excursions
Drífa ehf
Icefix ehf
Local langustine ehf
Skeggey ehf
Fallastakkur ehf
Iceguide ehf
Marina Travel ehf
Staðarfjall ehf
Fjallsárlón ehf
Íshúsið bistro ehf
Niflheimar ehf
Öryggismiðstöð Íslands

Stjórn FASK hittist á fundi 18. september s.l og fjallaði um markaðskönnunina og fyrirhugaða uppbyggingu á Jökulsárlóni. Stjórnin var sammála um mikilvægi þess að öll uppbygging á svæðinu verði á forræði heimaaðila þannig að sá virðisauki sem skapast við rekstur fasteigna og annarrar starfsemi á Jökulsárlóni skili sér til baka til nærsamfélagsins og efli og styrki það enn frekar, rétt eins og eitt af megin markmiðum stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs gerir ráð fyrir.

Frá fundinum 18. september hefur FASK átt fund með bæjarstjóra og formanni svæðisráðs Vatnajökulsþjóðgarðs til að viðra hugmyndir FASK að boða til fundar um málefnið og ýta þannig af stað umræðu um stofnun Fasteignafélags í eigu Hornfirðinga. Ennfremur átti stjórn FASK fund með þeim aðilum sem reka afþreyingu á Jökulsárlóni í dag, Jökulslárlóni ehf, Icelagoon og Iceguide ásamt Skinney-Þinganesi.

Á þeim fundi kom meðal annars fram mikilvægi þess að öflugt atvinnulíf þrífst eingöngu ef samfélagið sem það starfar í er sterkt og að samfélagið hafi tækifæri til að vaxa og dafna. Með því að eignarhald á innviðum á Jökulsárlóni verði á forræði heimamanna er líklegra að virðisauki sem hlýst af uppbyggingu við Jökulsárlón skili sér til baka til nærsamfélagsins.

Miðað við almenna umræðu, væntingar og umfang framkvæmda í Sveitarfélaginu Hornafirði er útlit fyrir að nýtt vaxtaskeið sé framundan í Austur Skaftafellssýslu. Verið er að skipuleggja ný hverfi og hugmyndir um uppbyggingu annars þjónustukjarna eru í deiglunni. Hingað til hafa vaxtaskeið svæðisins verið rekin áfram af sjávarútvegi en nú er útlit fyrir að ferðaþjónustan muni skapa tækifæri til frekari samfélagsþróunar. Gert er ráð fyrir að fjöldi ferðamanna tvöfaldist á næstu 7 – 10 árum og því mikilvægt að samfélagið sé vel vakandi og meðvitað um þau tækifæri sem framundan eru til að skapa það samfélag sem við viljum lifa í. Hér þurfum við virkt samtal íbúa, fyrirtækja og stjórnmálaflokka til að halda utan um tækifærin sem framundan eru.

Fasteignafélag í dreifðu eignarhaldi Hornfirðinga mun búa yfir víðtækri og mikilvægri reynslu af fjölbreyttum rekstri. Hér er ekki eingöngu átt við félög og einstaklinga sem eru í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja heldur allra þeirra Hornfirðinga sem kunna að hafa áhuga á að koma að eignarhaldi fasteignafélagsins. Því er mikilvægt að allir sem kunna að hafa áhuga á málinu komi á fundinn og kynni sér málið. Ólíklegt er að einstaka fyrirtæki eða einstaklingar ráði við svo umfangsmikið verkefni en hinsvegar er raunhæft að með sameiginlegum kröftum, þekkingu og reynslu verði verkefnið gefandi, árangursríkt og farsælt fyrir eigendur fasteignafélagsins og nærsamfélagsins.

Eins og sést á upptalningu þeirra fyrirtækja sem skila inn gögnum í markaðskönnunina þarf fjölbreyttan hóp heimaaðila til að standa saman að verkefninu. Svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs, Bæjarstjórn og önnur félagasamtök þurfa að leggjast á eitt við að ræða við sitt bakland um mikilvægi þess að uppbygging verði á forræði Hornfirðinga.

Verkefnið er umfangsmikið og því fylgir mikil ábyrgð. Gert er ráð fyrir að heildar byggingar- magn geti verið á bilinu 6.000 – 8.000 fm. Áætlaður heildar kostnaður getur því verið á bilinu 3 – 4 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að hægt sé að áfangaskipta uppbyggingunni.

Margt smátt gerir eitt stórt og með fjölbreyttu eignarhaldi mismunandi aðila með sameiginleg markmið á að vera hægt að afla nægs fjárs til að klára verkefnið. Nánari kynning og umræður fara fram á fundinum.

Hlutverk FASK er afmarkað og skýrt, það er að koma af stað hópi Hornfirðinga sem munu standa að uppbyggingu innviða á Jökulsárlóni að fundi loknum.

Stjórn FASK vonast til að sjá sem flesta á fundinum.

F.h Stjórnar FASK
Haukur Ingi Einarsson