Ernesto Barboza er 42 ára og er frá borginni Salto í Úrúgvæ í Suður Ameríku. Við ákváðum að forvitnast um jólahefðir í heimalandi hans og hans upplifun af íslenskum jólum.
Hvenær fluttir þú til Íslands og svo Hornafjarðar?
Ég kom upphaflega til Íslands árið 2000. Við fluttum svo til Hornafjarðar í byrjun júní 2014.
Er einhver sérstök hefð sem þú heldur meira uppá en aðra?
Það er gaman að fá sér rúnt í myrkrinu og skoða öll jólaljósin en mitt allra helsta uppáhald við jólin hér á Íslandi eru smákökurnar hjá Simma og Rósu.
Hvernig er haldið uppá jól í þínu heimalandi ?
Jólin í Úrúgvæ snúast um að vera með fjölskyldunni. Stórfjölskyldan kemur öll saman og það var alltaf heima hjá mömmu. Við vöknum snemma um morguninn og byrjum að elda fljótlega eftir það, svo um hádegisbil erum við með smárétti, og svo byrjum við að grilla fyrir kvöldmatinn. Við borðum um kl. 21 á kvöldin en jólin sjálf eru á miðnætti og þá skjótum við upp flugeldum og vökum lengi og höfum gaman. Það er mikið sungið og alltaf mikið um tónlist. En auðvitað er sumar hjá okkur í Úrúgvæ í desember, þannig að við erum alltaf úti því hitinn er mjög mikill á þessum tíma.
Síðast þegar ég hélt upp á jól í Úrúgvæ, sem var fyrir ca. 15 árum, var ekki verið að gefa gjafir heldur voru það „Reyes“ (Kóngarnir þrír, sem er vísun í vitringana þrjá. innskot blaðamanns) sem komu 6. janúar með gjafirnar. En sennilegast hefur eitthvað breyst á þessum árum.
Í Úrúgvæ er grillað, stór grill og margar tegundir í einu á boðstólum. Borðið í bakgarðinu hjá mömmu var alltaf dekkað upp fyrir 15- 20 manns. Eftirréttir eru margir td. ávaxtaslat, búðingur flan og ís.
Hér hjá okkur á Íslandi eru jólin hefðbundin íslensk jól.
Hvernig upplifir þú íslensk jól í samanburði við hátíðarhöldin í þínu heimalandi?
“Það er svo erfitt að bera saman jólin á milli landa þar sem að ég hef ekki verið heima í svo mörg ár.
Ætli ég sé ekki bara orðinn svo mikill Íslendingur að ég kann bara íslensku hefðina í dag” segir Ernesto og hlær.