Frá mínum bæjardyrum

0
1257

Ágætu bæjarbúar.
Mig langar að bregðast aðeins við ágætri grein sem Sveinbjörg Jónsdóttir skrifaði í Eystrahorn 12. nóvember sl. og fjallar um þá fyrirætlun sveitarstjórnar að bæta við lóðum í innbæ Hafnar. Fyrst vill ég biðja Sveinbjörgu afsökunar, ef henni finnst sér hafa verið mætt með útúrsnúningum og hæðni og getur vel verið að ég hafi ekki alltaf komist vel að orði, en ég hef viljað fjalla um þetta mál með rökum og yfirvegun, reyna að hlusta á rökin með og móti, vega og meta hvað vegur þyngst í málatilbúningi beggja aðila, komast að niðurstöðu.

Lóð fyrir lóð

Hér ætla ég að fara í þetta í sömu röð og Sveinbjörg, taka lóð fyrir lóð
Fyrir innan Silfurbraut 42 skáhalt upp undir Hríshólnum og lóð fyrir innan Silfurbraut 39 (sem er inná myndinni) hefur verið tekin út að ósk Golfklúbbsins, þær lóðir sem eftir eru verða ekki fyrir iðkendum enda hefur formaður golfklúbbsins tjáð mér að hann hafi ekki áhyggjur af þeim.
Fyrir aftan bílskúrana á Silfurbraut er gert ráð fyrir að setja þriggja íbúða raðhús sem er í ágætu samræmi við hin raðhúsin á Silfurbraut, það er passað að þarna verði pláss fyrir göngu- og hjólastíg eins og sést á myndinni.
Í enda Hvannabrautar er bætt við húsi og bílastæðum. Það hús verður eins og sést á myndinni þar sem við ákváðum að bæta við bílastæðum til þess að koma til móts við íbúa götunnar .
Á Vesturbraut hefur verið bætt við tveimur húsum, þessar lóðir hafa verið í aðalskipulagi síðan 2013. Við höfum reynt að koma sem mest til móts við íbúana, bæði höfum við lækkað mænishæð, þrengt götuna og breytt þessu í tvö hús í stað raðhúss eins og fyrstu skipulagstillögur voru og væri í samræmi við götumyndina.

Aðeins um græn svæði

Gult er um það bil það svæði sem fer undir þessar framkvæmdir. Grænt, eru núverandi leiksvæði (sem mætu vera betri) og fjólublátt er það græna svæði sem eftir verður á svæðinu, þetta getur hver og einn skoðað og mælt á (http://map.is/hofn/)
Vert er að spyrja sig, hvað eigum við að hafa mikið grænt svæði? Ég er alveg sammála Sveinbjörgu þau auka vellíðan og verða að vera inná milli.
Á kortasjá sveitarfélagsins er líka hægt að mæla vegalengdir í Hrossabithaganum, Drápsklettum og Þorgeirslundi sem Lions klúbburinn hefur verið að laga af miklum myndarskap undanfarin misseri.

Íbúakönnun, samráð, jarðvegur og fólksfjölgun

Í ágætri íbúakönnun (https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/umhverfismal/ibuakonnun/) sem sveitarfélagið stóð fyrir 2019 settu 7 manneskjur ( ef menn stækka skalann) grænt svæði þar sem lóðirnar á Vesturbraut eru, þó svo þær fari í nýtingu þá er eftir þar svæði á stærð við fótboltavöll og ekkert því til fyrirstöðu að hafa leiksvæði þar. Ekki er verið að bæta við neinum umferðargötum og verður það í göngufæri fyrir alla, eftir sem áður.
Mér finnst ekki sanngjarnt að tala um að ekki hafi verið haft samráð við íbúa. Ég hef mætt á fjóra fundi vegna þessa máls boðinn og óboðinn, einn í golfskálanum, einn hjá Sjálfstæðisfélaginu, fund fyrir bæjarstjórnarfund eins og Sveinbjörg talar um og svo einn íbúafund. Þar fyrir utan veit ég að formaður bæjarráðs og skipulagsstjóri héldu fund með fulltrúum hópsins. Fyrir utan þetta eru lögbundnar kynningar í skipulagsferlinu. Það hefur verið leitað sátta og spurt hvort væri hægt að taka út lóðir til að gera þetta ásættanlegra , en svarið hefur verið allt út, engin málamiðlun.
Jarðvegur hér hjá okkur á Höfn er eins og hann er og það eru ótrúlega mörg hús byggð á sandi. Stórar byggingar eru reistar á staurum, sem dæmi Ráðhúsið og Ísturninn að hluta og svo stór hluti af innbænum. Í skipulaginu er gerð krafa um að húsbyggjandi komi með grundunaráætlun svo hægt verði að passa að fari ekki illa fyrir nágrannabyggð.
Það er rétt hjá Sveinbjörgu að það hefur fjölgað í sveitarfélaginu umfram 1% sem gert var ráð fyrir í aðalskipulaginu síðan 2013. En þar draga sveitirnar vagninn því að þéttbýlið hefur ekki náð því marki enn og vantar talsvert á. Þetta er hægt að skoða á Hagstofan.is, þar eru margar fróðlegar upplýsingar.

Þétting

Mörg sveitarfélög eru að leitast við að þétta byggð til þess að nýta innviði betur og hefur verið sýnt fram á það að lóðirnar eru ódýrari fyrir sveitarfélög. Þær tölur voru kynntar á íbúafundinum og það er líka ódýrara fyrir náttúruna. Það er skylda okkar að nýta landið eins vel og við getum þó án þess að ganga á lífsgæði íbúa, því eins og bent hefur verið á þá eru græn svæði mikilvæg.
Það vill nú svo skemmtilega til að bæði ég og Sveinbjörg búum í húsum sem voru byggð á eftir umliggjandi húsum og telst því þétting í orðanna hljóðan, enda Höfn nánast ein þétting. Ég man eftir mörgum og held ég að nánast allar bæjarstjórnir undanfarna áratugi hafi staðið fyrir þéttingu hér á Höfn, meira að segja sú síðasta. Þær hafa verið mis umdeildar og kannski mis heppnaðar en um það verða alltaf skiptar skoðanir. En ég held að mér sé óhætt að fullyrða að alltaf hafa menn verið að standa í þessu stappi með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi.

Að lokum

Ég vona að ég hafi komið mínum skoðunum á framfæri í þessum pistli og þú lesandi góður sért einhvers vísari um þetta mál. Að búa í þéttbýli eða dreifbýli hefur sína kosti og galla, að búa í Sveitarfélaginu Hornafirði eru forréttindi og vont þykir mér ef íbúum finnst að þeim sé mætt með útúrsnúningi og hæðni. En verkefnið er umfram allt hjá okkar sveitarstjórnarmönnum að hugsa um hag sveitarfélagsins alls, reyna að hafa lífsskilyrði sem jöfnust hjá öllum íbúum. Reyna að bæta þau eins og kostur og raunhæft er, stýra skútunni þá stefnu sem við viljum fara með samtali og sjálfbærni að leiðarljósi.

Ásgrímur Ingólfsson
forseti bæjarstjórnar og
formaður umhverfis- og skipulagsnefndar