Forvarnir – mikilvægi foreldra

0
563

Þegar börn og ungmenni í sveitarfélaginu eru spurð um hvaða fræðslu þau telja sig helst vanta þá hafa þau kallað eftir fræðslu um geðheilsu, um sjálfseflingu, samskipti og kynfræðslu. Þau hafa einnig lagt áherslu á að foreldrar þeirra þurfi að fá sömu fræðslu. Kennarar sinna þessari fræðslu í skólunum en ungmennin hafa kallað eftir annars konar fræðslu til viðbótar þeirri sem þau fá þar. Starfsfólk á skóla-, tómstunda- og félagsmálasviði hefur unnið að því að svara þessum óskum. Fræðslan hefur verið fengin sumpart í formi netfyrirlestra, en einnig hafa fræðsluaðilar komið í heimsóknir til að hitta krakkana. Allir fræðsluaðilar hafa boðið upp á netfyrirlestra fyrir foreldra og hefur tengill verið sendur í tölvupósti til þeirra í gegnum Mentor. Því miður er reynslan sú að afar fáir foreldrar hafa nýtt sér það að horfa á fyrirlestrana á netinu.
Það verður aldrei lögð of mikil áhersla á hlutverk foreldra í forvörnum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að það sem styrkir góð samskipti, jákvæða sjálfsmynd og vinnur gegn áhættuhegðun hvort sem það er áhorf á klám og ofbeldi eða neysla ávana- og fíkniefna er að eiga í góðu og hlýju sambandi við foreldra sína, að foreldrar hafi gott eftirlit með börnum sínum, séu þeim jákvæður félagsskapur, góðar fyrirmyndir og beiti aga sem samanstendur af jákvæðum væntingum. Hlutverk foreldra er að aðstoða börnin sín við að taka góðar ákvarðanir með því að hlusta, styðja þau og kenna þeim að vega og meta ólíka kosti. 
Fræðslan sem boðið hefur verið upp á í vetur er fyrirlestur Dr. Erlu Björnsdóttur um mikilvægi svefns fyrir andlega og líkamlega heilsu, sjálfstyrkingar- og valdeflingarnámskeið frá fyrirtækinu „Út fyrir kassann“ , Sjúk ást, fræðsla í Þrykkjunni en á heimasíðunni www.sjukast.is eru góðar upplýsingar bæði fyrir börn og foreldra. Dagana 18.-19. mars kom kynfræðingurinn Sigga Dögg Arnardóttir í heimsókn á Höfn. Meginmarkmið heimsóknar hennar var að ræða um skaðsemi kláms. Sífellt yngri börn horfa á klám á netinu og hafa þau sem vinna með börnum skýrt frá því að orðanotkun og samskipti milli kynjanna séu farin að litast af þessu áhorfi og ranghugmyndum um raunveruleikann. Tekinn var upp fyrirlestur sem ætlaður er foreldrum og geta allir nálgast hann á slóðinni: https://youtu.be/EsGG_nh-_8s Foreldrar eru eindregið hvattir til að horfa á þann fyrirlestur sem í framhaldinu gæti auðveldað samtal við börn og ungmenni um klám og kynlíf almennt.

Í maí n.k. verða aðilar á vegum foreldrahúss með fræðslu um skaðsemi áfengis og vímuefna bæði á líkamlega og andlega heilsu sem og áhrif í nánum samböndum og samskiptum.

Heilsueflandi samfélag – Lýðheilsuráð