Fórnarlömb

0
504

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa grein er að mig langar að vekja umræðu í samfélaginu okkar um nokkuð sem ég hef lengi velt fyrir mér og hvort megi með samhentu átaki leysa þannig að allir verði ánægðir með útkomuna.
Þetta snýr að lausagöngu búfjár og þá aðallega því sem heldur sig á og við þjóðveg 1 í Sveitarfélaginu Hornafirði. Flest okkar sem ökum um þjóðveg 1 höfum orðið vör við að búpeningur af ýmsum dýrategundum lendir upp á þjóðvegi.

Hvað þarf til
Til þess að leysa megi þennan vanda þarf að minnsta kosti þrjá til. Sveitarfélagið Hornafjörð, Vegagerð ríkisins og búfjár-/landeigendur. Ég ætla í stuttu og sem einföldustu máli, þannig að sem flestir skilji, að reyna að útskýra þetta sem getur þótt flókið mál en þarf alls ekki að vera það.

Tölfræði
Samkvæmt upplýsingum frá l1ögreglunni á Suðurlandi um fjölda óhappa í Austur-Skaftafellssýslu af völdum búfjár sem tilkynnt voru til lögreglu, á 9 ára tímabili 2014-2022 þá eru atvikin 965 eða rúmlega 100 á ári. Þá skal það sérstaklega tekið fram að þetta eru aðeins þau tilfelli þar sem viðkomandi ökumaður, eigandi búfjár eða þriðji aðili tilkynnir óhapp og í öllum tilvikum erum við að tala um að búfé hafi drepist eða þurft að aflífa það. Þannig eru ótalin tilvik þar sem ekið er á skepnur sem slasast, líða kvalir og drepast síðar. Sum atvik uppgötvast jafnvel ekki fyrr en fé með áverka skilar sér heim síðla hausts. Þess ber að geta að engar upplýsingar eru aðgengilegar um óhöpp eða slys sem ökumenn valda eða verða fyrir þegar þeir reyna að koma í veg fyrir að aka á skepnu á þjóðveginum.

Tjón
Í hverju tilfelli þar sem ekið er á búfé verður talsvert eignatjón á bíl, búfé og jafnvel líkamstjón ökumanns og/eða farþega bíls. Búfé drepst og bifreið ökumanns skemmist og þar sem lausaganga er ekki bönnuð ber ökumaðurinn allan skaðann bæði á ökutækinu og skepnunni. Af þessu hlýst að sjaldnast tilkynna ökumenn um það þegar þeir aka á búfé á þjóðvegi 1. Auk þessa er tjón búfjáreigandans töluvert þegar búfénaðurinn drepst eða slasast. Sé búfjáreigandi tryggður og tjónið tilkynnt til lögreglu og viðkomandi tryggingarfélags þá fær hann bætur fyrir, hve háar þekki ég ekki.
Ekki skal heldur gert lítið úr því andlega áfalli sem það hlýtur að vera hverjum ökumanni að drepa skepnu með þessum hætti. Sömuleiðis er það áfall fyrir eiganda búfjár sem ekið er á, því oftast eru þetta jú, bestu eða uppáhalds skepnur þeirra sem missa.

Núverandi staða
Ef Sveitarfélagið Hornafjörður er skoðað þá er þjóðvegur 1 rúmlega 200 km og vissulega mis mikið um búfénað á hverju svæði fyrir sig. Landfræðilegar aðstæður eru líka mjög mismunandi þar sem í Öræfum er víða langt á milli fjalls og fjöru. Í Lóni erum við komin það austarlega að búfé getur gengið langt inn á dali og fjöll án þess að jöklar stöðvi för þeirra. Á Mýrum mætti kannski segja að vandamálið við þjóðveg 1 felist í því að féð rennur inn í svokallaðar traðir, þ.e. víða er ágætlega girt meðfram þjóðveginum en annarsstaðar ekki neitt. Þannig leitar féð inn á veginn þar sem er ógirt og er svo orðið aðþrengt á svæðum þar sem vel er girt. Suðursveit er, að Breiðamerkursandi fráskildum, líka erfið þar sem að á vissum svæðum er takmarkað landsvæði út fyrir vegina og búfé þess vegna mjög algeng sjón á og við þjóðveginn.

Úr reglugerð nr. 930/2012 um girðingar meðfram vegum
2 gr. ,,Veghaldari skal girða báðum megin vegar sem lagður er gegnum tún, ræktarland, engjar eða girt beitarland.’’ Vegagerð Ríkissins ber því skilda til að girða meðfram þjóðvegi 1, á því leikur enginn vafi.

  1. gr. 2 mgr. ,,Vegagerðin getur að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag ákveðið að annast og kosta viðhald með einstökum vegarköflum á þjóðveginum þar sem umferð er 300 bílar á dag eða meira að meðaltali yfir sumarmánuðina (SDU), enda sé lausaganga búfjár á viðkomandi vegarkafla bönnuð. Áður en Vegagerðin ákveður að taka við viðhaldi girðinga samkvæmt þessari grein skal hún tilkynna það viðkomandi sveitarfélagi og hlutaðeigandi landeigendum.’’
    Það er því ekkert sem hindrar Sveitarfélagið Hornafjörð og Vegagerð ríkissins að ráða bót á núverandi ástandi. Með því að Vegagerðin láti girða og viðhalda fjárheldum girðingum og bæjarstjórn lýsi formlega og með lögmætum hætti yfir lausagöngubanni á umræddu svæði. Síðan verður að sjálfsögðu að fylgja banninu eftir. Það búfé sem lendir inn á umræddu svæði, því sé smalað og komið til eiganda á hans kostnað. Góð reynsla skapaðist af þessu meðal annars í Mýrdalshreppi fyrir all nokkrum árum. Þar sést búfé ekki lengur á þjóðvegi 1.

Umhverfið
Við getum líka tekið þessa umræðu lengra og velt fyrir okkur umhverfisáhrifum þess að bílar séu stöðugt að hægja á, bremsa og gefa í. Svo ekki sé talað um þá sem þurfa að taka fram úr með margfeldisáhrifum á bílslysum. Upplifun ökumanna er misjöfn eftir reynslu, þannig getur sá sem er vanur og ekur oft um vegina þekkt til hvernig búféð bregst við umferð. Á hinn bóginn eru þeir sem ekki þekkja til og aka um landið í fyrsta skipti óöruggir, nauðhemla, sveigja yfir á vinstri akgreinina og keyra síðan langa stund með aðvörunarljósin kveikt. Á hverjum degi fara að meðaltali 1500 bílar um þjóðveginn á Mýrum og í Suðursveit. Ef við prófum að sjá fyrir okkur þjóðveg 1 þar sem lausaganga búfjár er bönnuð þá er umferðin þar öruggari, jafnari og allir ættu að geta haldið sig nálægt skynsamlegum hraða.

Reynslan
Að fenginni reynslu, eins og kaflinn frá Almannaskarðsgöngum í austri að gömlu brúnni yfir Hornafjarðarfljót, hefur sýnt okkur að þá er vel hægt að girða meðfram þjóðveginum. Með því er hægt að koma sem best í veg fyrir það að búfé skapi sjálfu sér og öðrum hættu í umferðinni. Það getur bara engan veginn verið ásættanlegt að þar verði látið við sitja. Ef vel á að vera þyrfti að girða meðfram þjóðveginum í allri sýslunni. Flest bendir til þess að skynsamlegast væri að næsti kafli sem ráðist verði í sé frá Hornafjarðarfljótum í austri að Jökulsárlóni í vestri. Þetta er um það bil 60 km kafli sem skapar mikla hættu eins og staðan er í dag.

Á meðan þessi grein var í skrifum var þessu skilti sem varar við lausagöngu sauðfjár komið fyrir við Mánagarð í Nesjum. Athygli vekur þó að þetta virðist einungis eiga við um þá sem aka í vestur. Að minnsta kosti hef ég ekki séð hvar þessi kafli endar eða hvar hann byrjar sé ekið í austur gegnum gamla Nesjahrepp.

Spurningar
Lausaganga búfjár, er hún bönnuð einhversstaðar í sveitarfélaginu? Eftir því sem ég kemst næst er svo ekki. Jafnvel þó að því sé haldið fram að eftir að Vegagerðin lét girða meðfram þjóðveginum og Sveitarfélagið Hornafjörður lýst yfir lausagöngubanni á þjóðvegi 1 frá Almannaskarði að Hornafjarðarfljótum. Þá segja mér fróðari aðilar að ef á það verði látið reyna fyrir dómi, þá haldi það ekki og ökumaðurinn sé í órétti keyri hann á búfé í Nesjum líkt og annarsstaðar í sveitarfélaginu. Ef einhver getur bent á það á prenti eða vísað til þess að þessu banni sé fylgt eftir, þá þætti mér fróðlegt að sjá það.
Hitt sem margir halda er að það sé einungis sauðfé sem má ganga frjálst/laust í sveitarfélaginu og þar með á og við þjóðveg 1. Eftir því sem ég kemst næst er lausaganga stórgripa, t.d. nautgripa og hrossa, ekki bönnuð og eru ökumenn því í sama órétti lendi þeir í því að keyra á slíkan búfénað. Aftur þá kalla ég eftir því ef einhver getur sýnt fram á hið gagnstæða.


Ímynd
Hvaða ímynd viljum við sem áfangastaður ferðamanna skapa okkur út á við? Nú veit ég að miklum peningum hefur verið varið í að kynna svæði en það tekur mun lengri tíma að skapa jákvæða ímynd heldur en að tapa henni. Mikilvægi þess að halda góðu orðspori er fjárhagslega ómetanlegt fyrir okkur öll enda ferðaþjónustan sú atvinnustarfsemi sem skapar flest störf í sveitarfélaginu. Sjálfur hef ég heyrt íslenska ferðamenn tala um það að þegar ekið er að vestan inn í sýsluna og komið er að fyrstu bæjunum í Suðursveit þá er eins og villta vestrið taki við. Búfé á og við þjóðveginn, oft stöðvast öll umferð þegar skepnurnar ákveða að fara inn á eða yfir veginn. Að sjá dauðan búpening í vegkantinum er heldur ekki óalgengt og getur varla verið góð auglýsing. Ég trúi því ekki að þetta sé sú ímynd sem Ríki Vatnajökuls vill að innlendir sem erlendir gestir hafi af okkar svæði. Gott og vel með búfé sem er innan girðingar meðfram þjóðveginum. Til þess að stoppa og njóta þeirra mættu reyndar vera miklu fleiri útskot og bílastæði. Núna skapa ferðamenn sjálfum sér og öðrum mikla hættu með því að snarhemla og stoppa í vegkantinum og stundum jafnvel á miðjum þjóðvegi.
Við getum líka átt von á því að með aukinni meðvitund almennings í landinu mun umræða um velferð dýra aukast. Sú umræða verður okkur ekki hliðholl þegar, en ekki ef talið berst að þeirri hættu sem vísvitandi er verið að stefna búfénu okkar í með því að það geti gengið frjálst um þjóðveg 1 sem er ætlaður umferð ökutækja en ekki sem íverustaður búfjár.

Lokaorð
Að lokum vona ég að þessi orð hreyfi við öllum sem þau lesa. Óháð því í hvaða stöðu viðerum þá geta allir haft áhrif til þess að takast á við og leysa þetta vandamál.
Þeir sem eru í bestu stöðu eru bæjarstjóri og sveitarstjórn, verkstjórar Vegagerðarinnar, stjórn Búnaðarsambands Austur-Skaftafellssýslu fyrir hönd bænda, lögreglustjórar umdæmisins og svo mætti lengi telja. Þú lesandi góður getur líka hjálpað til við og flýtt fyrir því að ráðist verði í að bæta ástandið. Þú getur krafist þess af þeim sem þú kaust í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Krafist þess af alþingismönnum og ráðherrum. Rætt þetta á kaffistofum. Deilt greininni sem víðast og svo framvegis. Það er einlæg von mín að strax á þessu ári verði ráðist í þær aðgerðir sem ég nefndi hér að framan þannig að ökumenn og búfé geti brátt um frjálst höfuð strokið. Við getum þá hætt að vera fórnarlömb núverandi ástands.

Sæmi Árbæ – ökumaður, land-og búfjáreigandi og áhugamaður um
dýravelferð og umferðaröryggi