Flottir “Hellisbúar” í þriðja sæti

0
923
Ástrós Aníta Óskarsdóttir, Harpa Sigríður Óskarsdóttir, Mateja Nikoletic og Selma Mujkic eru Hellisbúarnir

Landvernd stóð fyrir alþjóðlegu verkefni á meðal skóla á Íslandi sem kallast Ungt umhverfisfréttafólk, það kallast á ensku YRE og stendur fyrir Young Reporters for the Environment.
Verkefninu er ætlað að valdefla ungt fólk og gefa þeim tækifæri til að hafa áhrif með því að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings. Nemendur gátu einnig valið um að senda verkefni sín í landskeppni og bestu verkefnin taka síðan þátt í alþjóðlegri keppni.

Nemendur FAS fylgdust með úrslitunum á Nýtorgi í Nýheimum

Í FAS var ákveðið að nemendur í umhverfis- og auðlindafræði tækju þátt í verkefninu og var hafist handa fljótlega í byrjun annar. Það var orðið stutt í skilafrest þegar reglur um takmörkun á skólahaldi tóku gildi og hafði það áhrif á vinnuna. En með góðu skipulagi og þrautseigju náðu einhverjir hópar að skila inn verkefnum.
Tíu framhaldsskólar skiluðu inn samtals 40 verkefnum og komust sex þeirra í undanúrslit og þar á meðal var verkefni frá FAS.Það var instagram síða hjá hópi sem kalla sig „Hellisbúana“ og verkefnið fjallar um áhrif loftslagsbreytinga á íshella.
Þann 6. maí voru úrslitin kynnt og var viðburðinum streymt á fésbókarsíðu verkefnisins og verkefni “Hellisbúana” lenti í þriðja sæti sem er frábær árangur og hlýtur hópurinn verðlaun og viðurkenningu. Umsögn fjölmiðladómnefndar um verkefnið er eftirfarandi:
“Í þriðja sæti er instagramsíðan Hellis­búarnir. Bráðnun jökla ógnar ungum kynslóðum í dag og stefnir heimkynnum okkar og lífsháttum í hættu. Hópurinn setti verkefnið fram á mjög aðgengilegan hátt fyrir ungt fólk sem var til fyrirmyndar og var í senn fræðandi og lifandi.”
Frábær árangur!