Fjörið á strandveiðunum er byrjað

0
1682

Um daginn voru samþykkt á Alþingi lög, sem gilda eiga sem tilraun þetta sumarið. Við afgreiðsluna var undirritaður annar 2ja þingmanna sem greiddi atkvæði á móti þessum breytingum og því réttast að skýra mál mitt.
Ég hef verið hlynntur því að auka strandveiði­kvótann og með frumvarpinu fylgdi ráðagerð um að ráðherra auki þar talsvert við, sem ber auðvitað að fagna.
Mesti ágalli þessarar tilraunar, er hvorki það að verið sé að auka við strandveiðikvótann né að 700 tonn af ufsa fylgi með utan við hámarksafla, heldur sú misskipting sem fyrirsjáanleg er að verði milli veiðisvæða.

Hlutur strandveiða af heildarþorskafla

Strandveiðikvótinn var 2011 tæp 4,2% af heildarþorskafla landsmanna, fór svo niður fyrir 4% og hefur æ síðan, öll þessi sex ár, verið undir 4% og á tímabili var hann 3,3%. Miðað við að kvótinn hefði alltaf verið 4,2% á þessu tímabili er búið að minnka kvóta strandveiðiflotans um rúm 9.200 tonn, sem er tæplega 20% árleg skerðing að meðaltali eða sem svarar til eins strandveiðisumars á þessu sex ára tímabili. Þær raddir sem býsnast yfir aukningu afla strandveiðibátanna taka því heldur djúpt í árina ef tekið er mið af þessum tölum. Þvert á móti er gott að það sé verið að gefa í núna og mætti sannarlega gera getur.

Sókn á einstökum svæðum

Sókn flotans síðasta sumar var alls staðar meiri en 12 dagar, nema á svæði A vegna þess að þar hefur kvótinn verið kláraður á skemmri tíma, á átta dögum fyrstu þrjá mánuði sumarsins. Á því svæði er því verið að fjölga sóknardögum. Á svæðum B, C og D voru sóknardagar strandveiðiflotans 16 til 18 dagar alla mánuði síðasta sumar. Þarna er því í raun verið að fækka sóknardögum á þeim svæðum um fjóra til sex í hverjum mánuði.
Því ber að fagna ef strandveiðimenn geta haft fleiri daga til að sækja sjóinn, en ég fagna því ekki ef veiði og sókn á þremur svæðum er minnkuð.

Tryggðir 12 dagar á sjó

Samkvæmt tilraunaákvæðunum í lögunum er hverju strandveiðiskipi tryggður réttur til að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar. Síðan er ráðherra veitt heimild til að stöðva strandveiðarnar þegar stefnir í að heildarveiði sé náð. Það er því möguleiki og hann ekki ýkja fjarlægur að um miðjan júlí eða í byrjun ágúst verði veiðarnar stöðvaðar og úti er ævintýri. Það er því engin trygging fyrir því að strandveiðiskipin geti veitt alla þessa 48 daga.

Skapast ólympískt ástand?

Þessi fjögur strandveiðisvæði eru misjöfn til sjósóknar og veiða af ýmsum ástæðum. Veiði hefst fyrr fyrir vestan og þar er veiðin meiri, veðurlag er erfiðara fyrir opnu hafi en inn í fjörðum, sérstaklega snemma sumars. Þeir veiðimenn sem búa við erfiðari aðstæður hafa í byrjun júlí mögulega ekki náð nema hluta af afla fyrri ára, einmitt þegar hætta skapast á að öllum veiðisvæðum verði lokað þar sem heildaraflamarkinu er náð.
Eitt af markmiðum frumvarpsins og laganna nr. 19/2018 er að koma í veg fyrir ólympískar veiðar. Að sjómenn fari ekki út í hvaða veðri sem er til þess að tryggja sinn hlut áður en miðunum er lokað. Markmiðið er afskaplega gott og líka nauðsynlegt svo öryggi sjómanna sé eins og best verður á kosið. Því miður er ekki girt fyrir að þetta geti gerst, því sú staða getur hæglega komið upp strax í júlí að fyrirsjáanlegt verði að strandveiðikvótinn sé að klárast og ekki bara á einu svæði heldur allt í kringum landið, því strandveiðimiðin verða eitt svæði í þessu tilliti og er viðbúið að slíkt ástand geti skapast, jafnvel talsvert áður en veiðum á að ljúka.

Strandveiðisumarið

Ekki er unnt að skilja svo við þetta mál en að líta á fylgiskjal með frumvarpinu, um áætlaðar veiðar strandveiðiflotans miðað við 48 daga, þ.e. 12 daga í mánuði í fjóra mánuði. Þá kemur í ljós, miðað við óbreyttan bátafjölda frá því í fyrra, að veiði á svæði A yrði um 5.000 tonn, tæp 2.000 á svæðum B og C og tæp 1.200 tonn á svæði D. Hvað þýðir þetta borið saman við tölur frá því í fyrra? Það þýðir að veiðin á svæði D minnkar um 330 tonn, á svæði C minnkar veiðin um 360 tonn og á svæði B minnkar veiðin um 240 tonn. Á svæði A eykst veiðin um tæp 1.400 tonn.
Auðvitað fagna ég því að sjómenn geti veitt meira, en ég vil ekki að það komi niður á einhverjum öðrum. Fyrirsjáanlega verða færri dagar og minni veiði á svæðum B, C og D og þess vegna greiddi ég atkvæði gegn þessu frumvarpi.

Lokaorð

Við verðum að efla strandveiðar um allt land og til þess þarf að auka kvóta strandveiðiflotans og skipta honum réttlátlega milli landshluta. Það hefur sýnt sig að strandveiðarnar færa líf í byggðir um allt land. Það er ekki boðlegt þegar heildarkvóti er aukinn að veiðihlutfall þessara báta sitji eftir.
Ég óska sjómönnum á strandveiðunum góðra gæfta hvar á landinu sem þeir eru. Verkefnið í haust er að bæta strandveiðikerfið enn frekar og læra af reynslunni.

Karl Gauti Hjaltasonkarlgauti
alþingismaður Suðurkjördæmi