Fimmtudaginn 14. september hélt Nemendafélag FAS brennu til að heiðra komu nýrra nemenda við skólann. Brennan var haldin niður við Laxá í Nesjum, og fóru nemendur þangað með rútu. Við komu nemendanna voru grillaðar pylsur. Þegar allir voru orðnir saddir og sælir var tendrað í bálkestinum við söng Vilhjálms Magnússonar, trúbadors, sem sá um að halda uppi stuðinu það sem eftir lifði kvölds. Að sjálfsögðu voru svo grillaðir sykurpúðar á boðstólnum sema nemendur gæddu sér á undir lokin.
Það má með sanni segja að kvöldið hafi heppnast vel, stemningin var hugguleg og veðrið var okkur einstaklega í haginn. Bálið logaði vel og lengi í logninu, og hlýjan frá því varð til þess að kuldinn kom ekki að sök. Síðast en ekki síst skemmdi það ekki fyrir að norðurljósin dönsuðu um himininn á meðan hlýtt var á, og tekið undir með söng Villa.