Fjölskyldumiðstöð

0
617

Nú standa yfir framkvæmdir við endurbætur við húsnæðið við Víkurbraut 24 sem áður hýsti leikskólann Krakkakot. Húsnæðið mun hýsa Fjölskyldumiðstöð, félagsmálasviðið flytur þangað í heild sinni ásamt heimaþjónustudeild og málefni fatlaðs fólks. Aðstaða fyrir þennan málaflokk hefur verið á hrakhólum undanfarin ár. Á sviðinu starfa í heild um 25 manns þegar allt er tiltekið og þjónustuþegar eru um 50-70 að jafnaði. Síðasta ár hefur starfsemin verið dreifð, íbúð á Silfurbraut hefur hýst starfsemi heimaþjónustudeildar og málefni fatlaðs fólks, Selið á Víkurbraut 24 (litla húsið) er notað undir daglega iðju þjónustuþega, matarþjónustan hefur verið í Ekru ásamt því að starfsfólk félagsþjónustunnar er bæði í ráðhúsinu og í Nýheimum.
Viðtöl við talmeinafræðinga, sálfræðinga, sérfræðinga úr Barnahúsi og aðra sérfræðinga hafa ýmist farið fram í Safnaðarheimili Hafnarkirkju, á heilsugæslunni eða í skólunum. Aðstaða fyrir sérfræðinga sem koma hingað í styttri tíma verður í nýrri fjölskyldumiðstöð ásamt því að þar verður viðtalsherbergi og fundarherbergi. Uppbygging þjónustunnar er í samræmi við áherslur félagsmálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar sem vinnur að innleiðingu á stórri kerfisbreytingu þar sem barnið verður hjartað í kerfinu og tryggt verður að samfélagið muni grípa fyrr inn í þegar aðstoðar er þörf. Einnig hefur sveitarfélagið skrifað undir samning um barnvænt samfélag sem styður við þessar áherslur. Stefnt er að flutningi inn í Víkurbraut 24 í lok apríl eða byrjun maí og verður þá íbúum boðið að skoða húsnæðið og þær breytingar sem hefur verið ráðist í. Einnig er stefnt að því að efna til nafnasamkeppni þegar nær dregur opnun.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri